Innlent

Sakar Þórólf um að hafa skaðað skuldaendurskoðun hótelanna

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, segist telja að Þórólfur verði að segja af sér úr eftirlitsnefnd um sértæka skuldaaðlögun.
Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, segist telja að Þórólfur verði að segja af sér úr eftirlitsnefnd um sértæka skuldaaðlögun.
„Hann er þarna að tjá sig um fyrirtæki sem eru á viðkvæmu stigi og hefur valdið okkur miklum skaða með þessari grein," segir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, um grein sem Þórólfur Matthíasson, ritaði í Fréttablaðið í dag.

Þar fjallaði hann um ársreikninga Bændasamtakanna og virðist um leið hafa ljóstrað upp um viðkvæma stöðu Hótel sögu og Hótel Íslands, sem bæði eru í eigu Bændasamtakanna. Hótelin skulda tvo og hálfan milljarð samkvæmt grein Þórólfs, en hann fullyrðir ennfremur í greininni að kauptilboð hafi borist í hótelin árið 2006, þar sem boðið var 4,3 milljarða í reksturinn.

„Það sem er alvarlegt við þetta er að Þórólfur situr í eftirlitsnefnd um sértæka skuldaaðlögun og ég myndi halda að hann þyrfti að segja af sér með þessari framgöngu," segir Haraldur sem ætlar ekki að svara þeim átján spurningum sem Þórólfur leggur fyrir í grein sinni í Fréttablaðinu í dag.

Spurður með hvaða hætti Þórólfur hafi skaða hagsmuni fyrirtækjanna svarar Haraldur: „Við höfum verið í trúnaðarsambandi við bankann og þessi grein hefur neikvæð áhrif á ferli skuldaendurskoðun hótelanna, en sumar upplýsingar sem í henni birtast koma ekki fram í þeim gögnum sem hann vitnar til."

Haraldur vísar þar til kauptilboðsins sem hann vill meina að hafi ekki verið gert opinbert á sínum tíma. Haraldur ítrekar álit sitt um að hann telji að Þórólfur hljóti að þurfa að segja sig úr nefndinni um skuldaaðlögun, og bendir ennfremur á að nefndin fjalli einnig um skuldaendurskoðun bænda. Hann dregur því í efa að Þórólfur geti fjallað um þau mál af hlutleysi.

Spurður hvort það sé ekki réttmæt spurning hjá Þórólfi hvort það sé eðlilegt að Bændasamtökin standi í rekstri á hótelum samhliða öðrum verkefnum, svarar Haraldur: „Þetta fyrirtæki hefur verið rekið á sömu kennitölu frá árinu 1962 og það er ekki prófessorsins að ákveða hver á fyrirtæki og hver ekki."

Hann segir skuldir hótelanna skýrast að langmestu leytinu til af gengishruninu en þegar hafa Bændasamtökin afskrifar rúmlega níu hundruð milljón króna skuld hótelanna við Bændasamtökin auk þess sem hlutafé samtakanna í félaginu hefur verið fært niður í núll.

Þórólfur velti ennfremur fyrir sér síhækkandi geymslufé og hallarekstri hótelanna og skrifar eftirfarandi:

„Hér vaknar sú spurning hvort þar sé um að ræða fé sem Bændasamtökin sýsla með í umboði ríkissjóðs. Geymslufé var um 160 milljónir króna um áramót 2007/8, um 350 milljónir króna áramótin 2008/9, 708 milljónir króna 2009/10 og 702 milljónir króna áramótin 2010/11. Aðeins er sýnd samtala vaxtatekna og vaxtagjalda, en líklegt er að brúttóvaxtatekjur aukist í takt við aukið geymslufé. Virðist því fara saman aukin fjárþörf Bændasamtakanna í tengslum við hallarekstur hótelrekstrarins og hækkanir upphæða á geymslufjárreikningi".

Haraldur segir það landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytis að svara spurningum um aukið geymslufé, sjálfur segir hann samtökin ekki hafa neitt að fela hvað þetta varðar og vísar ásökunum Þórólfs á bug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×