Enski boltinn

Salan á Podolski loksins staðfest

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Köln og Arsenal hefa nú staðfest að sóknarmaðurinn Lukas Podolski muni í sumar ganga til liðs við síðarnefnda félagið

Podolski er 26 ára gamall og á að baki 95 leiki með þýska landsliðinu. Talið er að kaupverðið sé um ellefu milljónir punda, eða um 2,3 milljarðar króna.

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, lýsti yfir ánægju sinni með þetta í viðtali á heimasíðu félagsins. „Hann er leikmaður í hæsta gæðaflokki og erum við mjög ánægðir með að hafa náð samkomulagi við hann. Við lítum á að hann sé mikilvægur þáttur í okkar framtíðaráætlunum," sagði Wenger.

„Það er gott að hafa gengið frá þessu máli og við hlökkum til að sjá hann spila með þýska landsliðinu á EM í sumar."

Podolski ólst upp hjá Köln en var á mála hjá Bayern München frá 2006 til 2009. Þar átti hann misjöfnu gengi að fagna en hann hefur verið duglegur að skora fyrir Köln síðustu tvö árin.

Köln er þó í bullandi fallbaráttu í þýsku úrvalsdeildinni og þarf nánast á kraftaverki að halda í síðustu umferðunum til að forðast fallið.

Hér að ofan má svo heyra lagið sem verður væntanlega spilað grimmt á Emirates næsta vetur. Þetta lag myndi alltaf vinna Eurovision.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×