Innlent

Starfsmaður veittist að fötluðu barni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Atvikið átti sér stað á skammtimavistun í Garðabæ.
Atvikið átti sér stað á skammtimavistun í Garðabæ. mynd/ Sigurjón.
Starfsmaður á skammtímavistun fyrir fötluð börn og ungmenni í Garðabæ veittist að barni á heimilinu í síðustu viku. Barnið er ekki alvarlega slasað en er með stórt mar á handlegg, samkvæmt upplýsingum Vísis. Atvikið hefur verið kært til lögreglu, eins og fram kemur á fréttavefnum Pressunni.

Vísir hefur ekki fengið nákvæmar upplýsingar um hver aðdragandinn að atvikinu var eða hvernig það vildi til að öðru leyti en því að starfsmaðurinn veittist að barninu, hljóp fram hjá öðrum starfsmanni, sem varð vitni að atburðinum og inn í annað herbergi. Atvikið mun hafa gerst undir lok vaktar starfsmannsins og yfirgaf hann staðinn fljótlega eftir þetta.

Sigurbjörg G. Friðriksdóttir, forstöðumaður á heimilinu, segir að öðru starfsfólki á heimilinu hafi brugðið mjög vegna atviksins. „Það var farið í það að hlúa að barninu og hlúa að starfsmönnum sem urðu vitni að þessu," segir hún. Sigurbjörg segir jafnframt að foreldrar barnsins sem varð fyrir árásinni hafi sýnt heimilinu mikinn skilning, þrátt fyrir atvikið, og barnið sé enn á heimilinu. Aðstandendur annarra barna á heimilinu hafa verið upplýstir um atvikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×