Innlent

Bandaríkjadalur besti kosturinn fyrir Ísland

Manuel Hinds, fyrrverandi fjármálaráðherra El Salvador, segir Bandaríkjadal vera besta kostinn sem framtíðargjaldmiðill Íslands. Hann segist bjartsýnn á að Íslandi vegni vel í framtíðinni, þar sem menntunarstig hér sé hátt og undirstöðurnar traustar.

Manuel Hinds var ráðgjafi stjórnvalda í El Salvador, upp úr síðustu aldamótum, þegar Bandaríkjadalur var tekinn þar upp einhliða, en Hinds var aðalfyrirlesari á morgunfundi VÍB, eignastýringar Íslandsbanka, þar sem kostir Íslands í gjaldmiðlamálum voru til umræðu.

Rætt var ítarlega um þann vanda sem nú er við að eiga, það er gjaldeyrishöft og vantraust á gjaldmiðlinum, en talið er að óþolinmóð krónueign útlendinga í íslenska hagkerfinu sé allt að þúsund milljarðar króna, eða sem nemur um tveimur þriðju af landsframleiðslu.

Hinds sagðist sannfærður um að best væri fyrir Ísland að taka upp alþjóðlega mynt, fremur en að halda í krónuna. Bandaríkjadalurinn væri þar besti kosturinn, þar sem sú mynt auðveldaði aðgengi að lánsfé og væri auk þess útbreiddasta viðskiptamyntin þegar kæmi að hrávöru viðskiptum.

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, flutti einnig erindi á fundinum, ásamt Heiðari Má Guðjónssyni hagfræðingi og Ingólfi Bendar, hjá greiningu Íslandsbanka. Þórarinn sagði í sínu erindi að Seðlabanki Evrópu væri mjög mótfallin hugmyndinni um einhliða upptöku gjaldmiðils, sem gerði þann möguleika erfiðari en ella. Hann fjallaði einnig um það sem raunhæfan möguleika, að Ísland tæki upp dönsku krónuna en gengi hennar sveiflast með evrunni.

Seðlabankinn vinnur að gerð skýrslu um þá möguleika sem í boði eru þegar kemur að gjaldmiðli fyrir Ísland til framtíðar litið, en hún verður líklega kynnt í júní næst komandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×