Innlent

Lögreglan vill skotvopn í lögreglubílana

Höskuldur Kári Schram skrifar
Mikill meirihluti lögreglumanna vill að rafbyssur verði teknar í notkun hér á landi. Þá vilja þeir fá skammbyssur í lögreglubíla að norskri fyrirmynd.

Þetta kemur fram í könnun sem Landssamband lögreglumanna lét gera meðal lögregluþjóna nýlega en niðurstöður könnunarinnar verða kynntar í næstu viku.

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segir að niðurstaðan sé afgerandi hvað rafbyssur varðar.

„Helstu niðurstöðurnar eru þær að lögreglumenn almennt vilja fá taser valdbeitingartæki í sitt tækjabelti sem hluta af þeim valdbeitingartækjum sem lögreglan hefur," segir Snorri.

Hugmyndir um að lögreglan taki upp rafbyssu eða rafstuðtæki eru ekki nýjar af nálinni.

Ríkislögreglustjóri hóf skoðun á slíkum búnaði árið 2007 en í skýrslu sem kom út árið 2010 er hins vegar lagst gegn því að slíkur búnaður verði gerður að staðalbúnaði lögregluþjóna.

Snorri segir að rafstuðtæki muni auka öryggi lögreglumanna verulega.

„Rannsóknir sem gerðar hafa verið víða t.d. í bandaríkjunum í víða í Evrópu sýna fram á það að meiðsli á þeim sem lögreglan þarf að hafa afskipti af sem og lögreglumönnum stórminnkar með notkun þessa tækis," segir Snorri.

Lögreglumenn eru almennt andvígir vopnaburði en vilja - samkvæmt því sem kemur fram í könnuninni - aukið aðgengi að skotvopnum. Er vísað í norsku leiðina í því samhengi.

„Hún er þannig að lögreglan er með í bílum hjá sér sérstakar hirslur undir skotvopn þar sem þetta er geymt, í mjög öflugum skotvopnaskápum sem eru festir í bílana og með læsingum sem ekki er hægt að opna nema með til þess bærum áhöldum," segir Snorri.

Snorri segir að niðurstöður könnunarinnar endurspegli það ástand sem nú ríkir innan lögreglunnar.

„Lögreglumönnum hefur fækkað mjög mikið í kjölfar á þessu alþekkta efnahagshruni. Fjárveitingar til lögreglunnar hafa verið skornar niður af sömu ástæðu sem hefur gert það að verkum að lögreglumenn þurfa í síauknum mæli að vera einir við störf."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×