Innlent

Sprautaði piparúða inn á Hressó - gestir hlupu út

MYND/Stöð 2
Óprúttinn aðili sprautaði piparúða inni á skemmtistaðnum Hressó um klukkan hálf þrjú í nótt. Úðinn hefur töluverð áhrif á nærstadda og fundu gestir fyrir óþægindum þannig þeir hlupu á dyr eins og fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni. Staðurinn var loftræstur stuttu eftir atvikið og gátu gestir aftur snúið inn á staðinn innan skamms.

Nokkuð bar á að einstaklingar væru að sprauta piparúða inni á skemmtistöðum síðasta sumar, en slíkt er verulega óþægilegt fyrir nærstadda. Þá var slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu kallað að öðrum skemmtistaðnum í september á síðasta ári eftir að sprautað var úr piparúða inn á staðnum.

Þá kom eldur upp í rútu í Hafnarfirði á miðnætti og leikur grunur á að um íkveikju hafi verið að ræða. Ekki er vitað hver var þar að verki en rútan er ekki á skrá að sögn lögreglu.

Maður datt svo af hestbaki í Víðidal um eittleytið í nótt. Hann var fluttur á slysadeild til skoðunar en meiðsli hans eru ekki talin alvarleg.

Alls voru sjö ökumenn stöðvaðir á höfuðborgarsvæðinu í nótt grunaðir um meinta ölvun við akstur og tveir til viðbótar voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×