Enski boltinn

Liðsfélagar Balotelli hjá City búnir að fá nóg af honum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli var ekki sáttur með að fá ekki að taka aukaspyrnu.
Mario Balotelli var ekki sáttur með að fá ekki að taka aukaspyrnu. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það er aldrei lognmolla í kringum Mario Balotelli og nú heyrast sögur úr herbúðum Manchester City að liðsfélagar hans í City séu búnir að fá nóg af stælunum í framherjanum. Balotelli fór að rífast við félaga sína í miðjum leik um helgina og lenti síðan í hár saman við einn af reynsluboltum liðsins eftir leik.

Það fór ekki framhjá neinum í 3-3 jafntefli Manchester City og Sunderland um helgina þegar Mario Balotelli fór að rífast við nokkra leikmenn City af því að hann vildi frá að taka aukaspyrnu rétt utan teigs. Vincent Kompany, fyrirliði City, leiddi Balotelli á endanum í burtu og það var síðan Aleksandar Kolarov sem tók spyrnuna.

Daily Telegraph. hefur heimildir fyrir því að Mario Balotelli hafi síðan rifist heiftarlega við Yaya Toure eftir leik sem endaði með því að Kolo Toure þurfti að skilja þá í sundur. Balotelli og Yaya Toure lentu einnig í hár saman í tapleiknum á móti Swansea á dögunum.

Mario Balotelli hefur einnig lent upp á kant við Micah Richards og Jerome Boateng á æfingum City og þetta hegðunarvandamál hans er greinilega ekkert að lagast. Balotelli skoraði tvö mörk um helgina en það var samt ekki nóg til að sleppa við gagnrýni frá bæði liðsfélögum hans og stjóra.

„Mario er farinn að fara í taugarnar á mörgum leikmönnum City. Hann getur verið frábær en það er eins og hann telji sig vera hafinn yfir allar reglur. Það er ekki gott fyrir liðsfélaga hans þegar hann kemst í þannig skap að allt þurfi að snúast í kringum hann sjálfan," sagði heimildar maður The Sun úr herbúðum Manchester City.

Margt bendir nú til þess að Roberto Mancini, stjóri Manchester City, sé tilbúinn að selja Balotelli í sumar enda gaf það opinberlega út að hann treysti Balotelli ekki lengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×