Enski boltinn

United með fimm stiga forystu á toppnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Það tók Manchester United rúmar 80 mínútur að brjóta ísinn gegn Blackburn í kvöld en liðið vann þó að lokum 2-0 sigur með mörkum Antonio Valencia og Ashley Young.

Þar með hefur United tekið fimm stiga forystu á toppi deildarinnar og stórt skref í átt að sínum 20. Englandsmeistaratitli frá upphafi.

Blackburn er hins vegar dottið niður í fallsæti á nýjan leik en liðið er með 28 stig í átjánda sæti deildarinnar. Liðið er með jafn mörg stig og QPR en lakara markahlutfall.

Javier Hernandez átti skot í stöng snemma í leiknum en Blackburn fékk líka góð færi í fyrri hálfleik en David De Gea, markvörður liðsins, varði í tvígang glæsilega og sá til þess að staðan var markalaus í hálfleik.

Síðari hálfleikur var svo að mestu eign gestanna frá Manchester og náði liðið sanngjarnri forystu þegar að Valencia skoraði með föstu skoti úr þröngu færi á vítateigslínunni. Young innsiglaði svo sigurinn með hnitmiðuðu skoti rétt utan vítateigs eftir stoðsendingu Valencia.

Það reyndi þó á þolinmæði United-manna í kvöld en eins og svo oft áður reyndust leikmenn liðsins með nægilega sterkar taugar til að klára verkefni sitt, þó mörkin hafi komið seint. Helsti keppinautur United um titilinn, Manchester City, hefur misstigið sig að undanförnu og því fátt sem bendir til annars en að lærisveinar Alex Ferguson standi uppi sem sigurvegarar í vor, í enn eitt skiptið.

Þó er nóg af stigum eftir í pottinum en sjö umferðir eru eftir af tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×