Innlent

Vill að fé á dauðum bankareikningum fari til samfélagsmála

Eygló Harðardóttir þingmaður Framsóknarflokksins vill að það fé sem nú liggur inni á dauðum bankareikningum verði notað til nýsköpunar- og samfélagsmála. Fram kom í svari við fyrirspurn Eyglóar á Alþingi að ríflega 1,5 milljarður króna væri inn á íslenskum bankareikningum sem ekki höfðu verið hreyfðir í 15 ár eða lengur.

„Ástæða þess að ég óskaði eftir þessum upplýsingum var til að átta mig á hversu háar upphæðir stæðu á innlánsreikningum sem enginn hefði vitjað í yfir 15 ár. Margar ástæður geta verið fyrir því að peningar liggi óhreyfðir inni á reikningum, svo sem að eigandinn hafi látist og enginn gert kröfu um féð," segir Eygló.

„Bretar settu lög árið 2008 um reikninga af þessu tagi þar sem stjórnvöldum var heimilað að taka þá yfir ef þeirra hefði ekki verið vitjað í 15 ár. Settur var á stofn sjóður sem úthlutar fjármagni til nýsköpunar og samfélagsmála og í fyrra úthlutaði sjóðurinn rúmum 3 milljónum punda, eða um 600 milljónum króna í slík verkefni."

Eygló segir að í bresku lögunum eru jafnframt skýr ákvæði um að gefi eigandi reiknings sig fram eftir að peningarnir hafa runnið í sjóðinn skal ríkissjóður endurgreiða honum fjármunina auk vaxta. Í íslenskum lögum liggja peningarnir inni í bönkum á meðan þeirra er ekki vitað og geta bankarnir ráðstafað þeim eins og þeim sýnist, líkt og á við um önnur innlán.

„Hafi engin hreyfing verið á reikningnum í 20 ár fellur krafa reikningseigandans niður og bankinn eignast féð, svo framarlega sem hann geti sýnt fram á að gerð hafi verið tilraun til að hafa uppi á eigandanum. Engin ákvæði eru um endurkröfurétt að þessum 20 árum liðnum. Ef bankinn lætur hjá líða að leita eigandans helst krafan virk, en féð liggur samt sem áður inni á reikningi, til ráðstöfunar fyrir bankann," segir Eygló.

„Ég tel eðlilegt að skoða hvort ekki væri hægt að fara sömu leið og Bretar hafa gert og nýta þá fjármuni sem liggja inni á munaðarlausum bankareikningum til samfélagslegra verkefna í stað þess að láta þá velkjast um í bankahítinni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×