Fótbolti

Stelpurnar töpuðu í Belgíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir í fyrri leik Íslands og Belgíu í riðlakeppninni.
Margrét Lára Viðarsdóttir í fyrri leik Íslands og Belgíu í riðlakeppninni. Mynd/Vilhelm
Ísland hefur misst toppsætið í sínum riðli í undankeppni EM 2013 eftir að stelpurnar okkar töpuðu fyrir Belgíu ytra í kvöld, 1-0.

Þetta var fyrsta tap Íslands í riðlinum sem er nú í öðru sæti með þrettán stig, einu á eftir Belgíu. Ísland á þó leik til góða og getur með því að vinna þrjá síðustu leiki sína í riðlinum enn náð efsta sætinu og tryggt sér þannig farseðilinn til Svíþjóðar.

Eina mark leiksins skoraði Tessa Wullaert á 66. mínútu leiksins. Fram að því hafði Ísland verið sterkari aðilinn og sótt stíft allan seinni hálfleikinn fram að markinu.

Ísland átti einnig besta færi fyrri hálfleiks er Hólmfríður Magnúsdóttir var nálægt því að skora. Alls átti Ísland tólf marktilraunir í leiknum en Belgía fjórar.

Eftir markið fengu bæði lið sín færi en fleiri mörk voru ekki skoruð. Niðurstaðan því afar svekkjandi tap fyrir Belgum en fyrri leik liðanna í riðlinum lauk með markalausu jafntefli á Laugardalsvellinum.

Ísland mætir næst Ungverjalandi og Búlgaríu í júní. Ef Ísland vinnur þá leiki má gera ráð fyrir að lokaleikur stelpnanna í riðlinum, gegn Norðmönnum ytra í september, verði hreinn úrslitaleikur um sæti á EM í Svíþjóð í júlí á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×