Enski boltinn

Mancini er sannfærður um að Man City verði meistari

Roberto Mancini knattspyrnustjói Manchester City er sannfærður um að lið hans verði ensku meistari í ár.
Roberto Mancini knattspyrnustjói Manchester City er sannfærður um að lið hans verði ensku meistari í ár. Getty Images / Nordic Photos
Það ríkir mikil spenna fyrir leikina i ensku úrvalsdeildinni sem fram fara annað kvöld. Manchester City, Tottenham, Chelsea og Liverpool verða öll í eldlínunni. Manchester United er með fjögurra stiga forskot á Man City í efsta sæti deildarinnar að loknum 29 leikjum en nágrannaliðið á leik til góða í kvöld þar sem Man City tekur á móti Chelsea.

Svo gæti farið að Carlos Tevez verði í leikmannahóp Man City á ný en það er ljóst að John Terry fyrirliði Chelsea er úr leik vegna meisðla. Endaspretturinn á deildarkeppninni er hafinn. Aðeins 9 umferðir eru eftir en Roberto Mancini knattspyrnustjóri Man City er ekki í vafa um að lærisveinar hans muni standa uppi sem Englandsmeistarar í maí.

Manchester City á eftir að mæta Englandsmeistaraliði Man Utd á heimavelli en sá leikur fer fram 30. apríl. „Við vinnum titilinn, við munum gera allt til þess að vinna. Fram að þessu hefur okkur gengið stórkostlega í deildarkeppninni. Við þurfum að halda áfram á sömu braut. Þar sem við spilum bara einn leik á viku þá getum við verið einbeittari en áður," sagði Mancini við fréttamenn eftir æfingu Man City í dag.

Allt bendir til þess að Argentínumaðurinn Carlos Tevez verði á meðal varamanna á morgun, aðeins fimm vikum eftir að hann kom til Englands eftir þriggja mánaða „frí" í Argentínu. Tevez yfirgaf félagið án leyfis eftir að hafa lent í útistöðum við Mancini í leik í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Í þeim leik neitaði Tevez að hita upp og koma inná sem varamaður. Mancini varð æfur í kjölfarið og hafði hug á því að láta Tevez dúsa í „hundakofanum" út leiktíðina. Þeir hafa nú náð sáttum og Tevez baðst afsökunar á framferði sínu og hegðun.

„Hann er að verða betri og kannski er hægt að nota hann í 25-30 mínútur. Hann þarf að spila en það er ekki möguleiki að hann leiki í 90 mínútur. Ég tek ákvörðun um þetta á morgun þegar ég hef skoðað stöðuna á leikmannahópnum," sagði Mancini.

Leikirnir í ensku úrvalsdeildinn annað kvöld eru:

19:35 Man. City – Chelsea [Stöð 2 Sport 2 HD] [Stöð 2 Sport 2]

19:38 Tottenham – Stoke [Stöð 2 Sport 5]

19:53 Everton – Arsenal [Stöð 2 Sport 4]

19:53 QPR – Liverpool [Stöð 2 Sport 3]




Fleiri fréttir

Sjá meira


×