Enski boltinn

Demba af mörkum hjá Newcastle gegn Aston Villa

Stefán Árni Pálsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Newcastle United bar sigur úr býtum, 2-1, gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í dag en leikurinn fór fram á St. James Park.

Demba Ba skoraði fyrsta mark leiksins eftir um hálftíma leik en hann kom boltanum í netið af harðfylgni eftir mikla baráttu inn í teig andstæðingsins.

Þegar fimm mínútur voru komnar framyfir venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik náði gamla brýnið Robbie Keane að jafna metin fyrir Aston Villa en hann setti boltann í netið eftir frábært þríhyrningarspil með Charles N'Zogbia.

Papiss Demba Cissé kom síðan Newcastle yfir með stórkostlegu marki á 71. mínútu þegar hann klíndi boltanum upp í samskeytin, gjörsamlega óverjandi fyrir Shay Given í marki Aston Villa.

Það var því algjör demba af mörkum í Newcastle borg í dag eins og Guðjón Guðmundsson lýsandi á Stöð2 Sport komst svo skemmtilega að orði í lýsingunni.

Newcastle er í fimmta sæti deildarinnar með 42 stig en Aston Villa er í því 13. með 28 stig.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×