Enski boltinn

Capello viss um að Terry haldi áfram að gefa kost á sér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Terry.
John Terry. Mynd/AFP
Guardian hefur heimildir fyrir því að Fabio Capello, þjálfari enska landsliðsins, sé viss um að John Terry muni halda áfram að gefa kost á sér í enska landsliðið þrátt fyrir að hafa misst fyrirliðabandið í annað skiptið rétt fyrir stórmót.

Fabio Capello barðist gegn því að fyrirliðabandið yrði ekki tekið af Terry en stjórn enska sambandsins taldi það ekki mögulegt að maður, sem hefur verið kærður til lögreglu fyrir kynþáttaníð, gæti borið fyrirliðaband enska landsliðsins. Capello tók fyrirliðabandið af Terry fyrir tveimur árum eftir að upp komst um framhjáhald leikmannsins.

Stjórn enska sambandsins setti sig samt ekki upp á móti því að Terry spilaði með landsliðinu á EM í sumar en fljótlega fór það að heyrast úr herbúðum John Terry að hann væri það sár og reiður að hann ætlaði að hætta að spila með landsliðinu.

Fabio Capello þarf nú að finna nýjan fyrirliða fyrir enska landsliðið í stað Tery. Steven Gerrard er langlíklegasti kosturinn en menn eins og Glen Johnson, Frank Lampard og Gareth Barry hafa allir verið nefndir til sögunnar.

Enska landsliðið mætir Hollandi í æfingalandsleik í lok mánaðarins en það er ekki öruggt að fyrirliðinn í þeim leik verði framtíðarfyrirliði liðsins. Capello mun væntanlega ekki ákveða sig fyrr en eftir þann leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×