Innlent

Fjöldi ökumanna í vandræðum vegna ófærðar

Fjöldi ökumanna lenti í vandræðum á höfuðborgarsvæðinu upp úr miðnætti og voru björgunarsveitir kallaðar út þeim til aðstoðar á öðrum tímanum í nótt.

Víða er enn þunfært og því beinir lögreglan á höfuðbograrsvæðinu því til fólks að fara ekki af stað núna í morgunsárið nema á vel búnum bílum. Þetta á sérstaklega við um efri byggðir.

Upp úr miðnætti fór að snjóa mikið á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu og á þriðja tímanum var Suðurlandsvegi lokað vegna ófærðar og þurftu björgunarmenn að aðstoða vegfarendur á Hellisheiði og niður á Sandskeið.

Vesturlandsvegi var líka lokað á sama tíma, en hann var opnaður aftur um fjögur leitið og Suðurlandsvegur upp úr klukkan fimm. Fastir og yfirgefnir bílar hafa tafið fyrir mokstri þar og í borginni.

Þrátt fyrir mikla erfiðleika, er ekki vitað um slys eða alvarleg óhöpp. Spáð er að það fari að rigna á þessum svæðum með morgninum og þá getur orðið mikill vatnselgur á götum.

Suðurnesjamenn sluppu að mestu við snjókomuna en þar fór að rigna hraustlega upp úr miðnætti og er þar víða vatnselgur á götum og vegum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×