Innlent

Nýja stjórnmálaaflið skal heita Björt framtíð

Björt framtíð (BF) er nafn á nýjum stjórnmálaflokki, sem Guðmundur Steingrímsson og Besti flokkurinn ásamt einstaklingum um land allt, hafa unnið að undanfarið. Efnt var til nafnasamkeppni. Tæplega 2000 manns sendu inn tillögur samkvæmt tilkynningu frá hinu nýja framboði.

Sex einstaklingar sendu inn þá tillögu sem var fyrir valinu, þeir Birnir Sveinsson, Ólafur Sigurðsson, Kjartan Már Ómarsson, Sigurjón Sigurgeirsson, Egill Egilsson og Runólfur Þór Andrésson.

Í tilkynningu frá flokknum segir að nafnið Björt framtíð sé nafn sem nái vel utan um markmið hinna nýju stjórnmálasamtaka, að vinna að bjartri framtíð í stórum málum og smáum.

Svo segir orðrétt í tilkynningunni:

Björt framtíð er ekki sjálfgefin og fjölmargt getur ráðið úrslitum: Undirstöður efnahagslífsins þurfa að vera stöðugar svo hægt sé að byggja upp góð og varanleg lífskjör um land allt, auðlindirnar þurfa að skila þjóðinni sjálfbærum arði, lýðræðið þarf að vera virkt og frjótt, velferðarkerfið og menntakerfið hið besta, atvinnulífið fjölbreytt, og síðast en ekki síst þarf hin þjóðfélagslega umræða að vera sanngjarnari og uppbyggilegri. Það er áhyggjuefni yngri sem eldri Íslendinga að kannanir sýna t.d. að margt ungt fólk íhugar að flytja varanlega til annarra landa, væntanlega vegna þess að það telur framtíðina ekki nógu bjarta hér á landi. Þessu vill Björt framtíð breyta. Auk þess vísar nafn samtakanna til þeirra viðfangsefna í umhverfismálum sem blasa við á heimsvísu og kalla á afgerandi viðbrögð.

Næst á dagskrá hjá Bjartri framtíð - BF er að halda formlegan stofnfund þar sem einstaklingar munu skipta með sér verkum og reglur félagsins verða ákveðnar. Að því loknu hefst málefnavinna á grunni hugsjóna flokksins um græna, frjálslynda, alþjóðasinnaða, lýðræðislega og umfram allt bjarta framtíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×