Enski boltinn

Apamaðurinn handtekinn - Dalglish vorkennir ekki Evra

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Evra fékk að heyra það frá stuðningsmönnum Liverpool.
Evra fékk að heyra það frá stuðningsmönnum Liverpool. Nordic Photos / Getty Images
Lögreglan í Liverpool hefur staðfest að 59 ára karlmaður hafi verið handtekinn fyrir ósiðlega framkomu á viðureign Liverpool gegn Manchester United á laugardag.

Ljósmynd af stuðningsmanni að leika eftir apa fór eins og eldur í sinu um netheima að leiknum loknum. Lögreglan vann náið að því með Liverpool að hafa uppi á manninum.

„Við getum staðfest að 59 ára karlmaður frá Norður-Wales hefur verið handtekinn. Hann hefur verið færður á lögreglustöðina þar sem hann verður yfirheyrður. Merseyside-lögreglan vill þakka lögreglunni í Norður-Wales og knattspyrnufélaginu Liverpool fyrir aðstoðina við rannsókn málsinsn," segir í yfirlýsingu frá lögreglunni.

Talið er að maðurinn hafi með hátterni sínu sýnt kynþáttafordóma gagnvart svörtum leikmanni á Anfield. Flestir telja að fordómarnir hafi verið í garð Patrice Evra, fyrirliða Manchester United.

Töluverðrar spennu gætti á Anfield enda sauð upp úr síðast þegar liðin mættust á sama stað. Þá sakaði Evra Úrúgvæann Luis Suarez um kynþáttafordóma. Stuðningsmenn Liverpool bauluðu á Evra allan leikinn.

Kenny Dalglish, knattspyrnustjóri Liverpool, hrósaði stuðningsmönnum beggja liða fyrir framgöngu sína. Hann sagðist jafnframt ekki vorkenna Evra neitt þótt baulað væri á hann.

„Ertu að grínast í mér? Hvers vegna ætti ég að vorkenna Evra? Ég trúi ekki að þessi spurning sé í forgangi hjá þér. Hefurðu einhvern tímann spilað fótbolta? Það var baulað á mig í gamla daga," sagði Dalglish á blaðamannafundi að leiknum loknum.


Tengdar fréttir

Leitað að stuðningsmanni sem líkti eftir apa á Anfield

Lögreglan í Liverpool leitar manns sem sýndi kynþáttafordóma á viðureign Liverpool og Manchester United á Anfield í gær. Á ljósmynd, sem farið hefur eins og eldur í sinu um netheima, virðist áhorfandinn líkja eftir apa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×