Erlent

Abba-safn opnað í Svíþjóð

Björn Ulvaeus og Benny Andersson, karlraddirnar úr Abba.
Björn Ulvaeus og Benny Andersson, karlraddirnar úr Abba. Mynd/AFP
Það líður ekki á löngu þar til aðdáendur Abba geta komist í návígi við búninga sem fjórmenningarnir í hljómsveitinni klæddust, sungið Abbalögin í karókí og skoðað myndir af gömlu stjörnunum úr hljómsveitinni í fullri stærð. Abba-safn verður opnað í Svíþjóð á næsta ári.

Safnið verður opnað í nýju húsnæði í Djurgården í Stokkhólmi í apríl næstkomandi. Á vef norska ríkissjónvarpsins er haft eftir Björn Ulvaeus, einum af fjórmenningunum úr Abba, að sænsk popptónlist sé mikilvægur hluti af sænskri popptónlist og Abba sé eitt af þekktari nöfnum úr sænska poppinu. Þetta safn sé því mjög viðeigandi.

Fjórmenningarnir í Abba urðu heimsfrægir þegar þeir unnu Eurovision keppnina árið 1974 með laginu Waterloo. Eftir það gáfu þau út lagið Dancing Queen, Gime Gimme Gimme, Mamma Mia og mörg fleiri lög sem nutu mikillar vinsælda.

Hljómsveitin hefur selt meira en 370 milljónir hljómplatna um allan heim, en þau hættu störfum árið 1982.

Björn segist ekki vera viss um að allir fjórmenningarnir úr hljómsveitinni muni koma saman þegar safnið verður opnað en það yrði vissulega ánægjulegt ef svo yrði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×