Innlent

Helmingur kolmunnans á land

Það gengur hratt á 60 þúsund tonna kolmunnakvóta Íslendinga. mynd/hb Grandi
Það gengur hratt á 60 þúsund tonna kolmunnakvóta Íslendinga. mynd/hb Grandi mynd/hb grandi
Íslenski flotinn hafði í gær veitt rúmlega 35 þúsund tonn af kolmunna af rúmlega 60 þúsund tonna kvóta, samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu. Alls hafa fimmtán skip aflaheimildir sem gefa tilefni til veiða, eða frá tveimur til sex þúsunda tonna.

Í frétt á heimasíðu HB Granda kemur fram að skip fyrirtækisins séu í síðustu veiðiferðum ársins. Faxi RE landaði 1.500 tonnum á Vopnafirði um helgina en fyrir veiðiferðina voru eftirstöðvar kolmunnakvóta skipa HB Granda um 2.500 tonn en heildaraflinn á vertíðinni stóð þá í rúmum 10 þúsund tonnum. Að sögn skipstjórans á Faxa hefur veiðisvæðið færst norðar síðustu dagana en frá þeim stað sem Faxi lauk veiðum er um 35 til 38 tíma sigling til Vopnafjarðar þar sem skipið landar.

Nokkur fjöldi skipa er á kolmunnaveiðum suður af Færeyjum. Mest er um rússnesk skip en þar eru einnig færeysk skip og nokkur íslensk skip, og þá aðallega skip þar sem aflinn er unninn um borð. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×