Enski boltinn

Roy Hodgson: Það styðja allir leikmennirnir mig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Roy Hodgson, stjóri Liverpool, sagði ekki ætla að láta, vangaveltur út í bæ, trufla sig í sínu starfi. Liverpool vann 2-1 sigur á Bolton á Anfield í dag þar sem Joe Cole skoraði sigurmarkið í uppbótartíma.

„Ég talaði við eigendurna fyrir leikinn og þeir óskuðu mér góðs gengis. Þeir sögðust líka finna til með mér eftir tapið á móti Wolves," sagði Roy Hodgson sem sagðist ætla að taka sér það bessaleyfi að láta alla neikvæðni eiga sig á blaðamannafundinum eftir leikinn.

„Þetta snýst ekki um mig því þetta snýst um Liverpool Football Club og frammistöðu liðsins. Orðrómur um mína framtíð truflar mig ekki því ég er bara að hugsa um að undirbúa lið mitt svo að það geti spilað eins og það gerði hér í dag," sagði Hodgson.

„Ég er ánægður í dag af því að liðið spilað vel, eins vel og ég vil að þeir spili, eins vel og þeir vilja sjálfir spila og eins vel og allir stuðningsmennirnir vilja. Þetta verður því ánægjulegt kvöld," sagði Hodgson.

„Við vorum augljóslega miklu betri í allar 90 mínúturnar. Ég er sérstaklega ánægður með sigurmarkið en ég hefði ekki verið svo ósáttur með 1-1 jafntefli því þetta var svo mikil framför frá því á miðvikudaginn," sagði Hodgson.

„Ég veit vel hvenær leikmenn styðja stjórann sinn og sitt félag og hvenær þeir gera það ekki. Ef einhver ýjar að því að það sé eitthvað vandamál á því sviði innan okkar liðs þá hefur sá sami ekki fylgst með því sem hefur verið í gangi hér undanfarna sex mánuði. Það styðja allir leikmennirnir mig," sagði Hodgson.

„Þó að við höfum unnið leikinn á umdeildu marki þá þurfum við ekkert að vera afsaka okkur fyrir það. Þeir sem segja að við áttum ekki sigurinn skilinn þeir eru durtslegir," sagði Hodgson en það má sjá svipmyndir frá leiknum með því að smella hér að ofan. Það var nefnilega svolítil rangstöðulykt af sigurmarki Joe Cole.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×