Fótbolti

David Villa tryggði Spánverjum sigur í metleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Villa fagnar öðru marka sinna í kvöld.
David Villa fagnar öðru marka sinna í kvöld. Nordic Photos / AFP
Spánn lenti í vandræðum gegn Tékkum á heimavelli í kvöld en á lokum kom David Villa heims- og Evrópumeisturunum til bjargar með tveimur mörkum í síðari hálfleik. Villa er nú orðinn markahæsti leikmaðurinn í sögu spænska landsliðsins.

Jaroslav Plasil kom Tékkum yfir á 29. mínútu og þannig stóðu leikar þar til að rúmar 20 mínútur voru til leiksloka. Þá skoraði David Villa og hann bætti öðru marki við úr vítaspyrnu aðeins fjórum mínútum síðar.

Það dugði til sigurs og er Spánn því enn með fullt hús stiga, alls tólf, á toppi I-riðils. Tékkar eru í öðru sæti með sex stig eftir fjóra leiki.

Xavi, leikmaður Barcelona, lék sinn 100. landsleik í kvöld fyrir Spánverja. Þetta var átjándi sigur Spánverja í röð í undankeppnum EM og HM og halda þar með áfram að bæta eigið met.

Fyrir leikinn höfðu þeir Raul og David Villa hvor skorað 44 mörk fyrir spænska landsliðið en með þessum tveimur mörkum í kvöld hefur nú Villa skorað flest mörk fyrir hönd Spánverja frá upphafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×