Innlent

Opinberir starfsmenn vilja styttri vinnuviku

Elín Björg Jónsdóttir. BSRB hefur kynnt ríki og sveitarfélögum þá kröfu sína að vinnuvikan verði stytt um fjórar klukkustundir. Þannig yrði kröfum um fjölskylduvænna umhverfi mætt. Við það myndi Ísland færast nær því sem gerist í nágrannaríkjunum.
Elín Björg Jónsdóttir. BSRB hefur kynnt ríki og sveitarfélögum þá kröfu sína að vinnuvikan verði stytt um fjórar klukkustundir. Þannig yrði kröfum um fjölskylduvænna umhverfi mætt. Við það myndi Ísland færast nær því sem gerist í nágrannaríkjunum.

Stytting vinnuvikunnar úr 40 klukkustundum í 36 er meðal þess sem Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB) leggur áherslu á í viðræðum við viðsemjendur sína - ríki og sveitarfélög. Aðildarfélög bandalagsins fara með kjarasamningsumboðið hvert fyrir sig en hafa falið forystu bandalagsins að fjalla um nokkur tiltekin mál.

Mál sem snúa bæði að ríki og sveit eru breytingar á rétti til lífeyristöku, viðurkenning á rétti starfsmanna til hlutaveikinda, að frítökuréttar verði getið á launaseðli, að samdar verði reglur um starfslok eftir langan starfsaldur og áðurnefnd stytting vinnuvikunnar.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, segir það gamalt baráttumál að vinnuvikan verði stytt. „Þegar við fórum síðast fram með þetta mál, fyrir einum sex árum, var viðkvæðið að hér vantaði svo mikið vinnuafl til að reka þetta samfélag okkar að við værum að flytja inn fólk. Nú er ekki vöntun á fólki til starfa heldur þvert á móti og því teljum við að það sé lag," segir Elín Björg.

Grunnástæða kröfunnar sé að skapa fjölskylduvænna samfélag; að mæta vilja opinberra starfsmanna til að vinna minna og hafa meiri tíma aflögu fyrir fjölskylduna. Ályktað hefur verið í þá átt á mörgum umliðnum þingum BSRB. „Með þessu værum við að færa okkur í átt til þess sem gerist á hinum Norðurlöndunum," segir Elín Björg. Í kröfunni felst að kjör haldist óbreytt. Elín Björg segir jafnframt að hugsun BSRB sé sú að stytting vinnuvikunnar um fjórar klukkustundir komi til framkvæmda í áföngum. - bþs







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×