Lífið

Nýtt austurrískt leikrit byggt á 10 ráðum eftir Hallgrím

Hallgrímur Helgason og Peter Arp á meðan á heimsókn hins síðarnefnda stóð um síðustu helgi. Fréttablaðið/Valli
Hallgrímur Helgason og Peter Arp á meðan á heimsókn hins síðarnefnda stóð um síðustu helgi. Fréttablaðið/Valli
Leikrit byggt á síðustu bók Hallgríms Helgasonar, 10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp, verður frumsýnt í Salzburg í Austurríki í haust. Sjaldgæft er að leikrit byggð á bókum íslenskra höfunda séu sett á fjalirnar erlendis.

„Í mars í fyrra var Hallgrímur að lesa upp úr bókinni í Salzburg. Mér var boðið þangað til að lesa upp þýsku þýðinguna og þá heillaðist ég af tveimur köflum í bókinni," segir Austurríkismaðurinn Peter Arp sem annast leikgerðina. „Annar kaflinn var mjög fyndinn og fjallaði um þegar aðalpersónan Toxic er í sjónvarpsstúdíói og hinn fjallaði um þegar hann drepur föður sinn fyrir slysni. Ég heillaðist mjög af þessum köflum og samtölin fannst mér virkilega skýr og vel skrifuð. Ég talaði við Hallgrím og sagði að bókin nánast kallaði á að það yrði gert dramatískt leikrit úr henni."

Hallgrímur tók vel í bón Arps og eftir að hafa fengið leyfi frá útgefanda Hallgríms hófst Arp handa við undirbúninginn. Aðspurður segir hann að vel hafi gengið að laga bókina að leiksviðinu. „Ef þú ætlar að gera leikrit upp úr bók þarftu að finna út hver kjarni bókarinnar er og það er þessi aðalpersóna Toxic, sem er afar þjáð sál." Hann bætir við að leikritið verði draumkennt og byggi á því hvernig Toxic líti um öxl á viðburðaríkt lífshlaup sitt.

Arp var staddur hér á landi um síðustu helgi til að kynna sér sögusvið bókarinnar. Hann festi íslenska náttúru á filmu, þar á meðal hraunið fyrir utan Hafnarfjörð, og ætlar að hafa hana sem bakgrunn í leikritinu. Það verður síðan frumsýnt í Schauspielhaus-leikhúsinu 3. nóvember og eru um tólf sýningar fyrirhugaðar.

Schauspielhaus er svokallað frjálst leikhús sem þarf að sækja um styrki á hverju ári til að halda starfseminni gangandi. Það er eitt stærsta frjálsa leikhús Austurríkis og sömuleiðis ef Þýskaland og Sviss eru tekin með í reikninginn.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.