Enski boltinn

Coyle: Cahill kostar 20 milljónir punda

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gary Cahill og Didier Drogba.
Gary Cahill og Didier Drogba. Nordic Photos / Getty Images
Owen Coyle, stjóri Bolton, segir að félagið muni ekki selja varnarmanninn Gary Cahill á ekki minna en 20 milljónir punda.

Cahill hefur verið orðaður við fjölda liða að undanförnu, ekki síst eftir góða frammistöðu með liði sínu á fyrri hluta tímabilsins.

Coyle viðurkennir að til greina komi að Cahill færi sig um set strax í janúar þó svo að telji sumarið hentugra fyrir slík viðskipti.

„Ég sá vangaveltur um Gary Cahill í blöðunum í gær og ég get fullvissað alla um að ég hef ekki rætt við neinn um framtíð hans né nokkurs annars leikmanns," sagði Coyle við enska fjölmiðla.

„Ég tel það mikilvægt að við höldum hópnum okkar og reynum frekar að bæta við okkur 1-2 leikmönnum."

„Ég óttast það ekki þó svo að okkur myndi berast tilboð í Gary eða einhvern annan leikmann. Það gæti vel verið að það gerist vegna þess að þetta eru góðir leikmenn."

„En þegar leikmenn fara á 20, 25 eða 30 milljónir punda - sem er það sem þarf til - tel ég betra að leikmennirnir fái undirbúningstímabil til að venjast nýjum aðstæðum. Ef þeir myndu fara strax í janúar yrðu þeir strax undir mikilli pressu til að standa sig vel með nýja liðinu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×