Enski boltinn

Roy Hodgson hætti við blaðamannafund sinn í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roy Hodgson, stjóri Liverpool.
Roy Hodgson, stjóri Liverpool. Mynd/AP

Roy Hodgson, stjóri Liverpool, hætti við að halda fyrirhugaðan blaðamannafund sinn fyrir bikarleikinn á móti Manchester United á sunnudaginn.

Blaðamannafundur Hodgson átti að hefjast klukkan hálf tvö í dag en honum var frestað sextán mínútum fyrir tólf. Enskir fjölmiðlar voru fljótir til að líta á þetta sem vísbendingu um að tími Hodgson á Anfield sé að renna út.

Hodgson er búinn að vera stjóri Liverpool í sex mánuði og það hefur gengið lítið hjá liðinu sem hefur tapað 9 af fyrstu 20 leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni. Liverpool er nú í 12. sæti í deildinni aðeins fjórum stigum frá fallsæti.

Hodgson neitaði að svara spurningum um framtíð sína eftir 3-1 tap á móti Blackburn í vikunni en blaðamannafundur hans var þá mjög stuttur. Hodgson mun hinsvegar gefa Liverpool-sjónvarpsstöðunni viðtal seinna í dag og það verður síðan sett inn á heimasíðu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×