Lífið

Korn daðrar við dubstep

Jonathan Davis og félagar í Korn gáfu fyrir skömmu út sína tíundu hljóðsversplötu, The Path of Totality.
nordicphotos/getty
Jonathan Davis og félagar í Korn gáfu fyrir skömmu út sína tíundu hljóðsversplötu, The Path of Totality. nordicphotos/getty
Tíunda plata rokkaranna í Korn er komin út. Núna daðra þeir við dubstep og annars konar danstónlist með áhugaverðum árangri. Bandaríska rokksveitin Korn gaf fyrir skömmu út sína tíundu hljóðversplötu, The Path of Totality.

Söngvarinn Jonathan Davis og félagar ákváðu að prófa nýja hluti við gerð plötunnar. Þeir blönduðu rokktónlist sinni saman við nútímalega danstónlist og hóuðu í hóp taktfastra stuðbolta úr dubsteb, drum & bass og electrohouse-geiranum. Korn-menn voru frumkvöðlar á sínum tíma, enda með þeim fyrstu til að blanda saman hiphop-tónlist og nu-metal rokki. Tengingin við dubsteb-tónlistina ætti því ekki að koma svo mjög á óvart.

Upptökur fóru fram á heimili Davis í Bakersfield í Kaliforníu. Bassaleikarinn Fieldy segir gerð plötunnar hafa verið auðveldari og skipulagðari en nokkru sinni fyrr. „Við fengum fjölbreytt efni frá plötusnúðunum. Í stað þess að taka upp gítarinn eða bassann og djamma saman, fengum við innblástur frá þessum skrítnu hljóðum og vinnunni í kringum þau.“ Textarnir eru öðruvísi en áður því söngvarinn Davis ákvað að syngja ekki beint um sjálfan sig í þetta sinn heldur meira um upplifun sína af heiminum í kringum sig.

Sautján ár eru liðin frá því að fyrsta plata Korn kom út, samnefnd sveitinni. Næsta plata, Life Is Peachy, kom út tveimur árum síðar og vakti enn meiri athygli. Það var þó ekki fyrr en með þeirri þriðju, Follow the Leader, sem Korn náði almennri hyllri rokkáhugamanna. Ráðvilltir unglingar áttu auðvelt með að tengja sig við innibyrgða reiði Davis sem söng af öllum lífs og sálar kröftum um erfiða æsku sína. Lögin Got the Life, All in the Family og Freak on a Leash, hittu í mark og Korn var komin í fremstu röð.

Follow the Leader hefur í dag selst í um fjórtán milljónum eintaka og er vinsælasta plata Korn. Alls nemur plötusala sveitarinnar um 35 milljónum eintaka en mjög hefur þó dregið úr henni undanfarin ár.

Næsta útgáfa, Issues, fékk einnig fínar viðtökur, enda voru þar flott lög á borð við Falling Away From Me og Make Me Bad. Fimmta platan Untouchables kom út 2002 og ári síðar kom út Take A Look in the Mirror, sem er síðasta platan með gítarleikaranum Brian Welch, eða Head, sem frelsaðist og ákvað að segja skilið við bandið. Trommarinn David Silveria yfirgaf Korn svo eftir að sjöunda platan, See You on the Other Side, kom út.

The Path of Totality hefur fengið misjafnar viðtökur, rétt eins og síðustu plötur Korn. NME gefur henni 6 af 10 mögulegum og Spin 7 af 10. Tónlistarsíðan Sputnikmusic sér aftur á móti ekkert jákvætt við plötuna, gefur henni 0,5 af 5 mögulegum og segir Davis og félaga algjörlega úti á þekju.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.