Lífið

Tapaði heilli hryllingsmynd

Stolið leikrit Rithöfundurinn Hugleikur Dagsson er í sárum eftir að tölvu hans var stolið. Á henni var meðal annars handrit að leikriti sem sett verður upp í Borgarleikhúsinu í vetur. fréttablaðið/stefán
Stolið leikrit Rithöfundurinn Hugleikur Dagsson er í sárum eftir að tölvu hans var stolið. Á henni var meðal annars handrit að leikriti sem sett verður upp í Borgarleikhúsinu í vetur. fréttablaðið/stefán
Rithöfundurinn og grínistinn Hugleikur Dagsson lenti í þeirri óskemmtilegu reynslu að brotist var inn til hans um helgina. Þjófarnir höfðu meðal annars á brott með sér tölvu sem hefur að geyma óbirt leikrit, tvær bækur og handrit að hans fyrstu hryllingsmynd.

„Ég er hálf lamaður eftir þetta,“ segir Hugleikur Dagsson rithöfundur, en brotist var inn til hans á laugardagskvöldið og heimilið hreinsað af tölvum, hljómgræjum, sjónvarpsflakkara og upptökuvél.

Ein af tölvunum tveimur sem var stolið frá Hugleiki, grá MacBook Pro þakin Star Wars límmiðum, hefur að geyma ævistarf Hugleiks. Þar á meðal er leikrit sem hann hefur verið með í smíðum í nokkurn tíma og áætlað er að fari á fjalir Borgarleikhússins á komandi leikári.

„Ég vil ekki gefa of mikið uppi um söguþráð og titil leikritsins en ég var tilbúinn með fyrsta uppkastið. Svo var ég hálfnaður með annað uppkastið og á ekki til neitt afrit af því,“ segir Hugleikur. Á umræddri tölvu voru einnig handrit að framhaldsbókunum Popular Hits 2 og Garðarshólmi 2 en þær eiga báðar að koma út fyrir jólin.

„Handritið að minni fyrstu hryllingsmynd er einnig á tölvunni og það væri frekar súrt að glata því. Á upptökuvélinni var svo skemmtileg heimildarmynd um ferðalag mitt um páskana á hátíðina Aldrei fór ég suður. Allt er þetta ómetanlegt í mínum augum og ég er í sjokki yfir að þetta sé horfið,“ segir Hugleikur og bætir við að hann geti ekki hugsað þá hugsun til enda að tölvan komi ekki í leitirnar.

Hugleikur er því tilbúinn að greiða fundarlaun og biður almenning að hafa augu og eyru opin enda framtíð gríns á Íslandi í húfi. alfrun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.