Innlent

Umdeildir skúrar aftur á lóðina

Skúr á skólalóð í fyrra Skúrarnir á lóð Vesturbæjarskóla vöktu hörð viðbrögð foreldra og var því ákveðið að fjarlægja þá.fréttablaðið/stefán
Skúr á skólalóð í fyrra Skúrarnir á lóð Vesturbæjarskóla vöktu hörð viðbrögð foreldra og var því ákveðið að fjarlægja þá.fréttablaðið/stefán
Til stendur að flytja þrjár færanlegar kennslustofur á skólalóð Vesturbæjarskóla til að þjóna sem skólastofur. Gert er ráð fyrir að skúrarnir verði færðir nú á milli jóla og nýárs. Þetta var ákveðið á síðasta fundi skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur.

Í fyrra skapaðist mikil umræða meðal foreldra þegar tvær færanlegar kennslustofur voru settar á skólalóðina, beint á leiksvæði og íþróttavöll nemenda. Vegna mikilla mótmæla var ákveðið að flytja skúrana burt.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, situr í minnihluta ráðsins og mótmælir hann áformum meirihlutans.

„Ég flutti tillögu um að leita annarra leiða með staðsetningu skúranna en að setja þá á þennan stað. Til dæmis er hægt að koma að minnsta kosti tveimur af þremur fyrir í götustæði Vesturvallagötu en sú tillaga var felld af meirihlutanum," segir Kjartan.

Í bókun frá fundinum segir að stýrihópur skipaður á vegum skóla og frístundasviðs, foreldra og starfsfólks Vesturbæjarskóla hafi komist að þeirri niðurstöðu að besti kosturinn til að bregðast við plássleysi í skólanum sé að setja niður þrjár færanlegar kennslustofur á skólalóðina. Skipulagsyfirvöld hafi tekið neikvætt í að nýta Vesturvallagötu og ljóst sé að sá reitur rúmi ekki þær stofur sem skólinn þurfi á að halda.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×