Erlent

Hafna mismunun vegna kynhneigðar

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heilsar fundargestum eftir yfirlýsingu um stefnubreytingu í málefnum samkynhneigðra í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf á fimmtudag. Fréttablaðið/AP
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heilsar fundargestum eftir yfirlýsingu um stefnubreytingu í málefnum samkynhneigðra í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf á fimmtudag. Fréttablaðið/AP
Bandarísk stjórnvöld munu framvegis styðja við réttindi samkynhneigðra hvar sem er í heiminum með pólitískum þrýstingi, þróunaraðstoð og því að veita samkynhneigðum hæli í Bandaríkjunum. Þetta kemur fram í minnisblaði frá Barack Obama Bandaríkjaforseta sem gert var opinbert á fimmtudag. Hillary Clinton utanríkisráðherra áréttaði þessi áform á fundi í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna á fimmtudag.

Samkvæmt þessari viðbót við utanríkisstefnu líta Bandaríkin á það sem grundvallarmannréttindi að samkynhneigðum og transgender-fólki sé ekki mismunað á nokkurn hátt.

Samtök samkynhneigðra í Bandaríkjunum fögnuðu þessari stefnubreytingu og bentu á að enn ættu samkynhneigðir það á hættu að vera handteknir, pyntaðir og jafnvel teknir af lífi í sumum löndum.

Aðrir bentu á möguleg vandamál tengd þessari nýju stefnu. Neil Grungas, stofnandi samtaka sem beita sér fyrir rétti samkynhneigðra hælisleitenda í Bandaríkjunum, sagði bandarísk stjórnvöld verða að tryggja sér breiðan alþjóðlegan stuðning við þessa stefnu til að alþjóðasamfélagið sæi þetta ekki sem tilraun til að þvinga vestrænum gildum upp á önnur lönd.

Grungas benti á að stefnubreytingin gæti haft öfug áhrif. „Í löndum þar sem álit almennings á stefnu Bandaríkjanna er ekki hátt og vestræn gildi eiga ekki upp á pallborðið gæti almenningur notað þessa stefnubreytingu til að réttlæta ofsóknir gegn hommum og lesbíum og auka stuðning við það með því að höfða til andstöðu við Bandaríkin.“

Samkvæmt minnisblaði Obama eiga bandarískir erindrekar að hjálpa samkynhneigðu fólki séu mannréttindi þess brotin. Þá eiga þeir að verja samkynhneigða hælisleitendur og flóttamenn sérstaklega.

Innan við ár er síðan bandarísk stjórnvöld rufu þagnarmúr um samkynhneigða hermenn, sem þar til fyrr á þessu ári máttu ekki láta kynhneigð sína í ljós opinberlega.

brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×