Erlent

Varar Vesturlönd við afskiptum

Á landsþingi Sameinaðs rússlands
Medvedev forsætisráðherra og Pútín forseti ræða stólaskiptin.Fréttablaðið/ap
Á landsþingi Sameinaðs rússlands Medvedev forsætisráðherra og Pútín forseti ræða stólaskiptin.Fréttablaðið/ap
Vladimír Pútín, forsætisráðherra Rússlands, varar Vesturlönd við því að skipta sér af forsetakosningunum í Rússlandi, sem haldnar verða á næsta ári.

„Öll okkar erlendu samstarfsríki verða að skilja þetta, að Rússland er lýðræðisríki. Rússland er áreiðanlegur og trúverðugur samstarfsaðili sem þau geta og verða að ná samkomulagi við, en geta ekki troðið neinu upp á utan frá,“ sagði Pútín í ræðu á landsþingi stjórnmálaflokks síns, Sameinaðs Rússlands. Á þinginu var tilnefning hans sem forsetaframbjóðanda flokksins samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta.

Pútín gat ekki boðið sig fram til forseta árið 2008 eftir að hafa setið tvö kjörtímabil í embættinu, en hefur verið forsætisráðherra í eitt kjörtímabil og getur nú samkvæmt stjórnarskránni boðið sig fram til forseta á ný.

Dmitrí Medvedev, sem gegnt hefur forsetaembættinu þetta eina kjörtímabil, reiknar með að skipta við Pútín og verða forsætisráðherra næsta kjörtímabil.

Stólaskipti þeirra hafa verið gagnrýnd sem sýndargjörningur, sem eingöngu þjóni þeim tilgangi að tryggja Pútín völdin.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×