Erlent

Nýr forsætisráðherra tekur við

Yfir hundrað þúsund manns héldu út á götur höfuðborgarinnar í gær til að krefjast afsagnar herforingjastjórnarinnar.
Yfir hundrað þúsund manns héldu út á götur höfuðborgarinnar í gær til að krefjast afsagnar herforingjastjórnarinnar. fréttablaðið/AP
Herforingjaráðið í Egyptalandi tilkynnti í gær að Kamal el-Ganzouri, 78 ára fyrrverandi samstarfsmaður Hosní Múbarak, verði forsætisráðherra landsins.

Á blaðamannafundi í gær sagði el-Ganzouri að völd hans yrðu meiri en völd forvera hans, sem sagði af sér í vikunni í kjölfar mótmæla á Tahrir-torgi í Egyptalandi. Hann gaf þar með í skyn að herforingjaráðið, sem hefur í raun farið með völdin í landinu, ætli sér veigaminna hlutverk.

Meira en hundrað þúsund manns héldu út á götur höfuðborgarinnar í gær og kröfðust afsagnar herforingjastjórnarinnar. Þetta eru fjölmennustu mótmælin frá því að þau hófust á ný um síðustu helgi.

Mótmælendur eru ósáttir við herforingjastjórnina, sem hefur verið gagnrýnd fyrir mannréttindabrot og fyrir að draga lappirnar í því að koma á lýðræðisumbótum eftir að Múbarak forseta var steypt af stóli síðasta vetur. Valið á nýjum forsætisráðherra hefur ekki bætt andrúmsloftið, enda var el-Ganzouri forsætisráðherra í stjórn Múbaraks á árunum 1996-99, og hafði áður verið aðstoðarforsætisráðherra og skipulagsmálaráðherra.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×