Innlent

Styður aðild Palestínu að SÞ: Ákvörðun í höndum Alþingis

Össur í ræðustól á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
Össur í ræðustól á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Mynd/AP
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra lýsti því yfir á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gærdag að íslensk stjórnvöld styddu umsókn Palestínumanna um aðild að SÞ. Þau hygðust leggja fram þingsályktunartillögu í næstu viku um viðurkenningu á sjálfstæði Palestínu.

„Ríkisstjórnin er harðákveðin í því að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki. Ég hef rætt það í ríkisstjórninni og gerði utanríkismálanefnd grein fyrir áformum mínum,“ segir Össur.

„Frá nefndinni komu fram skýrar óskir um að þetta yrði rætt á þinginu og besta leiðin til þess er að leggja fram þingsályktunartillögu til þess að þingið geti rökrætt hana málefnalega og komist að niðurstöðu.“

Utanríkisráðherra sagði í ávarpi sínu að viðurkenning á sjálfstæði Palestínu væri í anda sátta í Mið-Austurlöndum, það væri raunar heimskulegt að neita Palestínumönnum um sjálfstæði á sama tíma og krafan um lýðræðisumbætur færi um arabaheiminn. Ráðherra er bjartsýnn á að þingið muni samþykkja tillöguna.

„Það liggur ljóst fyrir að það er meirihluti í þinginu fyrir þessu. Innan stjórnarandstöðunnar er líka stuðningur við þetta, þó ég geti ekki gefið mér það að allir munu styðja þetta. Það á eftir að koma í ljós.“- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×