Enski boltinn

Chelsea hélt lífi í titilbaráttunni með sigri á City

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Chelsea er komið í baráttuna um Englandsmeistaratitilinn í knattspyrnu eftir 2-0 sigur á Man. City á Stamford Brigde í dag. Það var varnarmaðurinn David Luiz sem kom heimamönnum á bragðið á 79. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Dider Drogba.

Brasilíski leikmaðurinn Ramires innsiglaði sigur Chelsea í uppbótartíma með frábæru marki. Hann lék á þrjá varnarmenn City og renndi boltanum framhjá Joe Hart í marki City.

Chelsea var mun betri aðilinn í leiknum en Man. City saknaði augljóslega Carlos Tevez sem var frá vegna meiðsla.

Með sigrinum er Chelsea komið í baráttuna um Englandsmeistaratitilinn því liðið er nú með 54 stig í þriðja sæti ensku deildarinnar og er níu stigum á eftir Man. United. Chelsea á hins vegar leik til góða auk þess að eiga eftir innbyrðisviðureign við United. Chelsea á því enn möguleika á að verja titilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×