Lífið

Kvöldstund með Steinda á uppboði í Eyjum

Smekklegir Hermann Hreiðarsson hefur haldið góðgerðamót í golfi undanfarin ár. Að þessu sinni verða treyjur frá Chelsea og kvöldstund með Steinda Jr meðal þess sem boðið verður upp um kvöldið. Eiður Smári verður meðal keppenda.
Smekklegir Hermann Hreiðarsson hefur haldið góðgerðamót í golfi undanfarin ár. Að þessu sinni verða treyjur frá Chelsea og kvöldstund með Steinda Jr meðal þess sem boðið verður upp um kvöldið. Eiður Smári verður meðal keppenda.
Kvöldstund með Steinda Jr. og treyjur frá Chelsea-stjörnunum Frank Lampard og John Terry eru meðal hluta sem boðnir verða upp í Vestmannaeyjum um helgina í tengslum við árlegt góðgerðamót Hermanns Hreiðarssonar, landsliðsfyrirliða. Mótið fer fram á laugardaginn og má reikna með mikilli veislu í Eyjum eins og undanfarin ár.

Rútur Snorrason hefur verið Hermanni innan handar við skipulagningu mótsins. Hann segir að ekki hafi gengið upp að fá þekkta, erlenda knattspyrnustjörnu til að keppa í ár en Sol Campbell, fyrrverandi leikmaður Arsenal, sýndi listir sínar á Vestmannaeyjavellinum fyrir tveimur árum. „Hins vegar kemur búningastjóri Chelsea með flottar treyjur frá félaginu sem seldar verða á uppboði,“ segir Rútur sem bindur vonir við að þær verði áritaðar af stjörnunum sjálfum.

Eins og vanalega verða landsfrægir kappar meðal keppenda en meðal þeirra má nefna Auðun Blöndal og Loga Geirsson. Þá lítur dagsins ljós eitt þyngsta og vöðvamesta holl íslenskrar golfssögu þegar Egill Gillzenegger og sjálfur Gazman slá upphafshöggin sín á fyrsta teig á laugardaginn. Íslenskar knattspyrnuhetjur verða að sjálfsögðu ekki langt undan; Eiður Smári, Heiðar Helguson og Ívar Ingimarsson hafa allir boðað komu sína sem og nokkrir leikmenn U21 landsliðsins.- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.