Lífið

Friðrik Dór og Ólafur Arnalds taka upp dansvæn popplög

Friðrik Dór og Ólafur Arnalds eyða löngum stundum saman í hljóðveri um þessar mundir. Útkoman er dansvænt popp í ætt við tónlist Robyn.
Friðrik Dór og Ólafur Arnalds eyða löngum stundum saman í hljóðveri um þessar mundir. Útkoman er dansvænt popp í ætt við tónlist Robyn.
„Þetta samstarf er rosalega hressandi,“ segir Friðrik Dór Jónsson, en hann vinnur um þessar mundir að nýju efni með tónlistarmanninum Ólafi Arnalds.

Óhætt að segja að um óvænt samstarf sé að ræða, en tónlistarmennirnir koma hvor úr sinni áttinni hvað tónlistarstefnur varðar. Ólafur Arnalds hefur verið kenndur við nýklassík en Friðrik hefur farið fyrir nýrri kynslóð popptónlistarmanna hér á landi.

Nýja efnið verður dansvænt en þó ekki alveg í takt við þau lög sem Friðrik Dór hefur gefið út hingað til. „Þetta er einhvers konar elektró, sem er nýtt fyrir mér en Ólafur hefur eitthvað verið að grúska í þessu.“ Ólafur segir tónlist þeirra félaga vera indí-skotið popp.

„Þetta svipar kannski eitthvað til Robyn, svona dansvænt popp með elektrófíling.“

Ólafur og Friðrik Dór unnu saman að laginu „Leiðarlok“ sem hefur verið í mikilli spilun undanfarið. En hlusta strákarnir á tónlist hvor annars? „Ég get ekki sagt að ég hafi verið vel að mér í hans efni, en ég tók smá syrpu áður en við hittumst í fyrsta skipti,“ segir Friðrik Dór.

Ólafur segist ekki hafa komist hjá því að heyra lögin hans Frikka. „Friðrik Dór er alls staðar. Að sjálfsögðu heyrir maður lögin af og til.“ Ólafur segir jafnframt að samstarf þeirra hafi gengið vel. „Þú finnur ekki auðveldari mann í samstarf en Friðrik. Hann gerir bara það sem maður segir honum að gera,“ segir Ólafur og hlær.

Hvorugur var með það á hreinu hvenær von væri á lögunum. „Við erum ekki alveg vissir. Það þarf að klára ýmsa hluti fyrst, en ég held að það styttist í þetta,“ segir Ólafur að lokum. kristjana@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.