Lífið

Fyndið að heyra í sér í útvarpinu

Magdalena Dubik og Védís Vantída Guðmundsdóttir, til hægri, skipa dúóið Galaxies og hita upp fyrir þýska plötusnúðinn Micha Moor á Nasa í kvöld. Védís Vantída byrjaði fyrir stuttu með fjölmiðlamanninum Sölva Tryggvasyni.
Magdalena Dubik og Védís Vantída Guðmundsdóttir, til hægri, skipa dúóið Galaxies og hita upp fyrir þýska plötusnúðinn Micha Moor á Nasa í kvöld. Védís Vantída byrjaði fyrir stuttu með fjölmiðlamanninum Sölva Tryggvasyni.
„Okkur finnst bara frábært að fá að koma fram,“ segir Védís Vantída Guðmundsdóttir, söngkona úr dúóinu Galaxies, en hljómsveitin hitar upp fyrir þýska plötusnúðinn Micha Moor á Nasa í kvöld.

Með Védísi í hljómsveitinni er fegurðardrottningin fyrrverandi Magdalena Dubik, en stúlkurnar sungu fyrst opinberlega í keppninni um Ungfrú Ísland í maí á þessu ári.

Lagið sem þær fluttu heitir „I don‘t want this love“ og er þegar komið í spilun hjá útvarpsstöðvunum. „Það er frekar fyndið að heyra í sér í útvarpinu og maður vonar bara að það gerist enn oftar,“ segir Védís í léttum dúr, og bætir við að þær stöllur séu að vinna að fleiri lögum. „Þetta er svolítið á byrjunarreit, en við erum þó komnar langt með annað lag sem við gefum vonandi út bráðlega.“

Stúlkurnar hafa báðar margra ára reynslu af hljóðfæraleik, en Védís spilar á þverflautu og Magdalena á fiðlu. Þeim hefur tekist að innleiða klassísku hljóðfærin í danspoppið. „Við viljum reyna að spila sem mest sjálfar. Ef við tökum einhver tökulög viljum við líka spinna svolítið og nota hljóðfærin meira,“ segir Védís.

Micha Moor hefur nokkrum sinnum komið hingað til lands og hefur Védís hlustað á hann með öðru eyranu í gegnum tíðina. „Hann átti lag í spilun hér í fyrra og svo kemur fyrir að maður hlusti á hann á YouTube. Ég fór nú líka að hlusta aðeins meira á hann eftir að við fengum þetta verkefni,“ segir Védís, spennt fyrir kvöldinu. - ka






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.