Innlent

Engin sumarlokun hjá Fjölskylduhjálpinni

Beðið eftir mat Nokkur þúsund fá aðstoð í hverjum mánuði hjá hjálparsamtökum.fréttablaðið/gva
Beðið eftir mat Nokkur þúsund fá aðstoð í hverjum mánuði hjá hjálparsamtökum.fréttablaðið/gva
Fjölskylduhjálp Íslands verður ekki lokað í sumar eins og undanfarin sumur, að sögn Ásgerðar Jónu Flosadóttur stjórnarformanns.

„Við lokuðum í sex vikur í fyrrasumar en tókum þá ákvörðun að hafa opið í allt sumar þar sem ljóst er að þörf er á því. Til þess að halda kostnaði í lágmarki ætlum við hins vegar að hafa lokað fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði. Við vonum að fólk eigi peninga fyrstu viku hvers mánaðar. Ef annað kemur í ljós höfum við opið allar vikur.“

Ásgerður Jóna segir aðsóknina ekki hafa minnkað þrátt fyrir úthlutun Hjálparstarfs kirkjunnar á sérstökum kortum með inneign fyrir matarkaupum. „Úthlutanir okkar í hverjum mánuði eru um 2.600 talsins.“

Hjálparstarf kirkjunnar hefur frá því í maí afhent um 250 matarkort til fjögurra mánaða notkunar. Um 350 hafa sótt um slík kort, að sögn Vilborgar Oddsdóttur félagsráðgjafa.

„Einhverjir þeirra sem sótt hafa um eru yfir tekjumörkum en aðrar umsóknir eru í vinnslu.

Til okkar hafa komið nýir hópar sem ekki hafa komið áður. Þetta er fólk sem ekki hefur treyst sér til þess að standa í röð og bíða eftir matarpokum.“

Að sögn Vilborgar hafa um 600 til 800 fengið aðstoð hjá Hjálparstarfinu í hverjum mánuði.

Síðasti úthlutunardagur sumarsins hjá Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur var í gær en opnað verður aftur 24. ágúst. Ragnhildur Guðmundsdóttir, formaður nefndarinnar, segir aðsóknina aukast stöðugt. „Um 500 hafa komið í hverri viku til þess að fá matarpoka.“- ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×