Lífið

Hugsaði ekki út í afleiðingarnar

Paul McCartney rifjaði það upp á dögunum þegar Bítlarnir hættu störfum.
Paul McCartney rifjaði það upp á dögunum þegar Bítlarnir hættu störfum.
Paul McCartney hefur viðurkennt að hann hafi ekki hugsað út í afleiðingarnar þegar hann lýsti því yfir fyrir fjörutíu árum að hann hygðist ekki semja fleiri lög með John Lennon.

McCartney hefur almennt verið talinn sá sem leysti Bítlana upp árið 1970. Hann var í viðtali vegna fyrstu sólóplötu sinnar og sagðist ekki ætla að vinna með John Lennon aftur. Og þar með var Bítlaævintýrið úti. „Ég hef verið sagður vera mjög fljótfær. Ég verð mjög ákafur þegar ég fæ hluti á heilann og það er yfirleitt gott, þá kemur maður hlutunum í verk. Öðru hvoru getur þetta hins vegar valdið ákveðnum vandræðum af því að maður hugsar ekki út í afleiðingarnar. Og á þessum tíma hugsaði ég ekkert út í þær, ég var bara að gefa út plötu með efni sem ég kunni ákaflega vel við.“

Paul segir að hann hafi hitt hina meðlimi Bítlana mánuði áður og þar hafi John lýst því yfir að hann ætlaði að yfirgefa hljómsveitina. Sambandsslit Bítlanna vörpuðu skugga á útgáfu sólóskífu Pauls en sjálfur kveðst hann vera stoltur af henni, hún hafi rutt brautina fyrir heimagerðar plötur. Paul var upptökustjórinn á henni og lék á nánast öll hljóðfærin sjálfur.

„Þegar maður hugsar um það eru ótrúlega margar plötur gerðar á þennan hátt í dag af því tækninni hefur fleygt mikið fram. Og í raun og veru var ég hálfgerður brautryðjandi á þessu sviði án þess að gera mér grein fyrir því.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.