Lífið

Stuttmynd Marsibilar vekur athygli

Varaborgarfulltrúinn Marsibil sneri sér að kvikmyndagerð og hefur vakið athygli fyrir fyrstu stuttmynd sína.
Varaborgarfulltrúinn Marsibil sneri sér að kvikmyndagerð og hefur vakið athygli fyrir fyrstu stuttmynd sína. Fréttablaðið/GVA
„Þessi hátíð flokkast undir svokallaða A-hátíð, svo þetta er mikill heiður fyrir mig,“ segir Marsibil Sæmundardóttir, en hún gerði nýverið stuttmynd sem rataði á Palm Springs Internatinoal Shortfest, þriðju stærstu stuttmyndahátíð í heimi.

Marsibil hefur lokið einu ári í Kvikmyndaskóla Íslands og var stuttmyndin lokaverkefni hennar á seinni önninni. „Það er ansi magnað að hafa komist inn á þessa hátíð því aðeins kvikmyndahátíðirnar í Cannes og Sundance eru taldar stærri,“ segir Marsibil, en myndin ber nafnið Freyja og skartar leikkonunni Sólveigu Arnarsdóttur í aðalhlutverki. Marsibil segist einnig hafa sent myndina inn í aðra keppni, þar sem hún hlaut eins konar heiðursverðlaun. „Á þeirri hátíð má senda inn allt frá stuttmyndum til tónlistarmyndbanda eða heimilidarmynda, svo framarlega sem efnið er minna en 57 mínútur. Það eru alltaf nokkrir sem vinna í hverjum flokki og myndin mín hlaut verðlaun sem er alveg frábært,“ segir Marsibil.

Marsibil var varaborgarfulltrúi Framsóknarflokksins um nokkurt skeið en ákvað að söðla um og hóf nám við Kvikmyndaskólann. „Ég var búin að vera í pólitík í átta ár, svo það var bara komið fínt af henni í bili. Þegar ég var í menntaskóla langaði mig alltaf í einhvers konar listnám, en lífið dró mig annað. Ég ákvað loksins að fara í Kvikmyndaskólann og þetta á virkilega vel við mig,“ segir Marsibil, en bætir þó við að hún hafi ekki getað sinnt náminu í vetur þar sem það sé dýrt. „Það verður mjög gaman að komast í skólann aftur og klára námið. Ég er að vinna að nokkrum verkefnum en skólinn er dýr, svo ég veit ekki hvenær ég næ að klára hann,“ segir Marsibil.

-ka






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.