Lífið

Tónleikahaldari leitar sátta við lögreglu

Mynd/Gísli Berg
„Þetta kom flatt upp á mig, ég man ekki eftir því að þetta hafi verið gert áður. Maður skyldi ætla að það væri hægt að líta fram hjá þessu þegar svona stórir tónleikar fara fram. Ég veit ekki alveg hvaða tilgangi þetta þjónar, þetta virkar á mig eins og fjáröflun,“ segir Ísleifur B. Þórhallsson tónleikahaldari. Hann er ósáttur við aðgerðir lögreglunnar á tónleikum Eagles á fimmtudagskvöld, en fjöldi fólks fékk sekt fyrir að leggja ólöglega fyrir utan Laugardalshöllina.

Ísleifur segir tónleikahaldara hafa verið í góðu samstarfi við lögregluna og hann vonast til að hægt verði að ná sáttum í þessu máli þannig að þetta endurtaki sig ekki. „Allur fjöldinn dreifðist vel og forsvarsmaður brunaeftirlitsins var mjög ánægður með hvernig tónleikarnir tókust.“

Eagles-liðar þóttu fara á kostum á tónleikunum í Laugardalshöll og voru feykilega ánægðir með allt hér á Íslandi. Þeir létu sig hverfa um leið og tónleikunum lauk, fóru út um bakdyrnar þar sem þeirra biðu glæsikerrur sem keyrðu þá upp á Hilton-hótelið. Aðstoðarfólk hljómsveitarinnar vann síðan baki brotnu um nóttina við að taka niður sviðið og hljóðkerfið. Síðan var keyrt út á Keflavíkurflugvöll klukkan þrjú í fyrrinótt, en sveitin spilar næst á tvennum tónleikum í Noregi um helgina. Eagles-menn flugu af landi brott í hádeginu í gær á tveimur einkaflugvélum.- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.