Lífið

Bloggarar ráða ekki hvað er í sjónvarpinu

Gestur Valur Svansson, leikstjóri Tríós, hefur fengið góð viðbrögð við þáttunum. Á Facebook voru hins vegar margir ekki nógu ánægðir. Mynd/GVA
Gestur Valur Svansson, leikstjóri Tríós, hefur fengið góð viðbrögð við þáttunum. Á Facebook voru hins vegar margir ekki nógu ánægðir. Mynd/GVA
„Ég er mjög sáttur við útkomuna," segir Gestur Valur Svansson, leikstjóri gamanþáttanna Tríó sem voru frumsýndir á RÚV á fimmtudagskvöld. Tríó virðist ætla að vekja misjöfn viðbrögð hjá almenningi. Á fréttablogginu Fréttir af Facebook á Eyjunni voru tekin saman neikvæð ummæli úr ýmsum áttum í kjölfar frumsýningar þáttarins. Kvikmyndagerðarmaðurinn Gagga Jónsdóttir bað RÚV til dæmis um að endurgreiða sér afnotagjöldin með millifærslu.

Á RÚV hafði hins vegar ein kvörtun borist samkvæmt Sigrúnu Stefánsdóttur dagskrárstjóra. „Það hringdi ein kona. Hún var að kvarta undan bíómyndum almennt og Tríói líka," segir hún.

Ertu ánægð með þáttinn? „Ja, svona efni er ekki akkúrat uppáhaldsefnið mitt. Ég get ekki miðað við að ég sé týpískur áhorfandi."

En kom til greina að taka þáttinn af dagskrá vegna harðra viðbragða á netinu? „Nei, ég held ég láti ekki þessa 300 sem blogga eins og vitleysingar á kvöldin ráða hvað er í sjónvarpinu. Ég læt ekki Facebook stjórna dagskránni hérna," segir Sigrún.

Leikstjórinn Gestur Valur fékk frábær viðbrögð við fyrsta þætti Tríós. „Ég er virkilega ánægður með það — ég held að það hafi verið 114 SMS í símanum í morgun," segir hann.

Gestur segist ekki hafa orðið var við þau slæmu viðbrögð sem Eyjan bendir á en hvetur fólk til að halda áfram að fylgjast með. „Þetta er bara byrjunin. Það er alltaf tæknilega erfitt að gera fyrsta þáttinn, maður þarf að kynna inn persónurnar og vera grípandi svo fólk vilji sjá meira," segir hann. „Mér finnst það hafa tekist og er nokkuð sáttur. Þættirnir verða betri og betri."

- afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.