Lífið

Hætt að selja stolinn Hugleiksbol

Óprúttinn notandi vefsíðunnar Mysoti.com tók mynd Hugleiks Dagssonar ófrjálsri hendi og hugðist selja á bol í vefverslun síðunnar.
Óprúttinn notandi vefsíðunnar Mysoti.com tók mynd Hugleiks Dagssonar ófrjálsri hendi og hugðist selja á bol í vefverslun síðunnar.
F43100611 hugleikur
„Ég man ekki eftir að hafa rekist áður á að einhver sé að taka myndirnar mínar í leyfisleysi og setja á boli,“ segir listamaðurinn Hugleikur Dagsson.

Vefsíðan Mysoti.com býður notendum sínum upp á að prenta myndir á boli og selja í vefverslun sinni. Óprúttinn notandi vefsíðunnar var með bol til sölu merktan mynd Hugleiks Dagssonar úr bókinni Popular Hits og rukkaði tæpa 22 dali fyrir stykkið — um 2.500 íslenskar krónur.

„Það fer aldrei í taugarnar á mér ef einhver einn og einn er að gera þetta fyrir sig,“ segir Hugleikur. „Það sem er leiðinlegt við þetta er að við vorum að fara að prenta akkúrat þessa mynd á bol, þannig að það er pirrandi að einhver úti í útlöndum hafi verið fyrri til. En það er fyrir öllu að þessi muni ekki græða meira á bolnum sínum en við græðum á okkar.“

Fréttablaðið hafði samband við Steve Hunt, eiganda Mysoti.com, sem var miður sín yfir málinu og hefur tekið bolinn úr sölu. „Ég tek höfundarrétt mjög alvarlega og hyggst taka alla boli þessa tiltekna notanda úr sölu, enda hefur hann notað mikið af höfundarréttarvörðum myndum frá fólki og fyrirtækjum.“

Hunt sagði enn fremur að ef notandinn sem stal mynd Hugleiks hefði hagnast á þeim tiltekna bol yrðu gerðar ráðstafanir til að borga Hugleiki fyrir ómakið. Hann tók þó fram að svo virtist sem enginn bolur með myndinni hefði selst.- afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.