Lífið

Baltasar kemur sér fyrir í Baker Street

á ferð og flugi Baltasar Kormákur er búinn að koma sér fyrir í London og verður þar, meira eða minna, í allt sumar. Hann er að hljóðvinna Contraband.
Fréttablaðið/Anton
á ferð og flugi Baltasar Kormákur er búinn að koma sér fyrir í London og verður þar, meira eða minna, í allt sumar. Hann er að hljóðvinna Contraband. Fréttablaðið/Anton
Baltasar Kormákur hefur verið á ferð og flugi á þessu ári. Hann bjó í hálft ár í New Orleans þegar tökur á Hollywood-myndinni Contraband stóðu yfir. Svo kom hann heim í sveitasæluna í Skagafirði þar sem kvikmyndin var klippt með Elísabetu Ronaldsdóttur og nú er hann fluttur út aftur, að þessu sinni til London til að sinna eftirvinnslu myndarinnar. „Ég verð hérna meira og minna í allt sumar. Ég er kominn með íbúð rétt hjá höfuðstöðvum Working Title og verð að hljóðvinna myndina í Baker Street þar sem þeir eru með aðstöðu,“ segir Baltasar í samtali við Fréttablaðið.

Dvölin á Íslandi var ekki eingöngu nýtt til klippinga heldur notaði leikstjórinn tækifærið og tók nokkra ramma fyrir Contraband hér á landi. „Ég þurfi að taka upp smá skipadót og fékk góða aðstoð frá Eimskip og svo var ég við neðansjávartökur á Þingvöllum. Þær nýtast mér reyndar bæði fyrir Contraband og Djúpið. Maður reynir að koma með alla vinnu sem maður getur hingað heim,“ segir Baltasar en eftirvinnslufyrirtækið Framestore Reykjavik vinnur að myndinni eins og Fréttablaðið hefur greint frá.

Contraband skartar stórstjörnunni Mark Wahlberg í aðalhlutverki ásamt Kate Beckinsale, Lukas Haas og Giovanni Ribisi. Myndin er endurgerð á íslensku kvikmyndinni Reykjavik-Rotterdam og segir frá smyglara sem er plataður út í eitt smyglið enn. Contraband verður væntanlega frumsýnd á næsta ári.- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.