Lífið

Tarantino leitar til Leonardo DiCaprio

Tarantino og DiCaprio eru flott teymi.
Tarantino og DiCaprio eru flott teymi.
Ljóst er að bandaríski leikstjórinn Quentin Tarantino hyggst ekki svíkja aðdáendur sína með nýjustu mynd sinni. Hann hefur nú leitað til Leonardo DiCaprio í þeirri von að leikarinn taki að sér aðalhlutverkið í nýjustu kvikmynd hans, Django Unchained.

Kvikmyndin segir frá heillandi en ofbeldishneigðum eiganda skemmtistaðarins Candyland, Calvin Candie. Þar berast menn á banaspjótum og kvenkyns þrælar eru notaðir sem kynlífstól. Tarantino vill að DiCaprio leiki þennan mann. Leikstjórinn hefur þegar fengið Christoph Waltz, sem var magnaður í Inglourious Basterds, til að leika þýskan tannlækni sem hefur snúið sér að hausaveiðum. Hins vegar er Will Smith hættur við að leika þrælinn Django samkvæmt síðustu fregnum. Tarantino hefur þegar látið framleiðslufyrirtæki sitt hafa handritið en ekki er ljóst hvenær tökur hefjast.

DiCaprio hefur hins vegar úr nægum verkefnum að moða; hann leikur J. Edgar Hoover í væntanlegri kvikmynd Clints Eastwood og gæti leikið aðalhlutverkið á móti Carey Mulligan í The Great Gatsby sem ástralski leikstjórinn Baz Luhrmann hyggst gera. Þá má ekki gleyma því að DiCaprio er nýhættur með ísraelsku fyrirsætunni Bar Refaeli og að hann hefur sést með Gossip Girl-stjörnuna Blake Lively upp á arminn að undanförnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.