Erlent

Baktería sem smitast frá nautgripum í menn

Fjölónæm baktería hefur fundist í Bretlandi sem smitast milli nautgripa og manna.
Fjölónæm baktería hefur fundist í Bretlandi sem smitast milli nautgripa og manna.
Breskir vísindamenn hafa uppgötvað nýjan stofn fjölónæmrar bakteríu, MRSA, sem virðist smitast í menn frá nautgripum og getur valdið lífshættulegum veikindum. Frá þessu var greint á fréttavef The Guardian en þetta er í fyrsta sinn sem fjölónæm baktería finnst á breskum bændabýlum.

Bakterían fannst árið 2007 á þremur prósentum mjólkurbúa við rannsókn á júgurbólgu um allt Stóra-Bretland. Líklegt þykir að bakterían smitist í opin sár, við beina snertingu við sýkt dýr eða fólk sem vinnur með dýrin.

Bakterían fannst í sýnum úr fólki í Skotlandi, Englandi, Írlandi, Danmörku og Þýskalandi, en elsta dæmið er frá árinu 1975. Fjöldi sýktra í Englandi og í Skotlandi jókst frá einum árið 2002 upp í tólf einstaklinga á síðasta ári.

Haraldur Briem landlæknir segir fjölónæmar bakteríur vandamál sem öðru hvoru komi upp hér á landi. Ekki sé þó ástæða til að óttast faraldur. „Það er vel þekkt að upp komi bakteríusýkingar sem rekja má til dýraríkisins en slíkum tilfellum hefur ekki fjölgað hér á landi. Með gerilsneyðingu afurða má koma í veg fyrir smit og einnig getum við varið okkur með því að sjóða og steikja mat og skola grænmetið.“- rat




Fleiri fréttir

Sjá meira


×