Erlent

Líkin höfðu verið flutt úr einni gröf í aðra

ratko Mladic
ratko Mladic
Samtímis því sem réttað verður yfir stríðsherranum Ratko Mladic fyrir alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum í Haag í Hollandi halda sérfræðingar áfram að reyna að bera kennsl á lík þeirra sem létust í blóðbaðinu í Srebrenica í Bosníu árið 1995. Þá tók herflokkur undir stjórn Mladic, sem var hershöfðingi Bosníu-Serba, af lífi allt að átta þúsund múslíma.

Rannsóknin í Bosníu er erfið þar sem Bosníu-Serbar gerðu allt sem þeir gátu til þess að koma í veg fyrir að glæpir þeirra uppgötvuðust. Í þeim tilgangi fluttu þeir lík fórnarlamba sinna úr einni fjöldagröfinni í aðra. Líkamsleifar eins fórnarlambs fundust til dæmis á fimmtán stöðum í fimm fjöldagröfum, að því er segir á vefsíðu danska blaðsins Politiken.

Nú, sextán árum eftir blóðbaðið, hafa verið borin kennsl á 5.437 fórnarlömb. Á hverju ári eru jarðsettar líkamsleifar þeirra sem nýlega hafa verið borin kennsl á. Athöfnin fer fram í kirkjugarði í Potocari fyrir utan fyrrverandi bækistöðvar Sameinuðu þjóðanna þar sem þúsundir leituðu skjóls. Í ár verða líkamsleifar 500 fórnarlamba jarðsettar.

Næstum öll fórnarlömbin frá Srebrenica voru karlar eða drengir. Aðeins hafa fundist líkamsleifar fimm kvenna. „Ég fann einu sinni leikfang. Lítinn bíl. Það er óvenjulegt. Ég hef einnig fundið ungbarnaskó,“ er haft eftir einum sérfræðinganna sem vinna að rannsókninni.

Ratko Mladic er ákærður fyrir þjóðarmorð, stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu.- ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×