Erlent

Skógareldar ógna byggð í Arizona-ríki

Þessir íbúar Springerville í Arizona voru á leið á fund vegna aðsteðjandi hættu. Þegar myndin var tekin voru eldarnir enn nokkur hundruð kílómetra í burtu.fréttablaðið/ap
Þessir íbúar Springerville í Arizona voru á leið á fund vegna aðsteðjandi hættu. Þegar myndin var tekin voru eldarnir enn nokkur hundruð kílómetra í burtu.fréttablaðið/ap
Skógareldar sem hafa geisað í austanverðu Arizona-ríki í vikutíma færast í aukana þrátt fyrir umfangsmiklar tilraunir slökkviliðs til að hemja eldinn. Á annað þúsund íbúar bæja á svæðinu hafa flúið heimili sín. Eldarnir hafa þegar gleypt um 800 ferkílómetra lands.

Skógareldarnir hafa logað í um vikutíma en í gærmorgun versnaði ástandið mikið vegna vaxandi vinds sem hefur gert verkefni slökkviliðs nær óvinnandi.

Jan Brewer, ríkisstjóri í Arizona, lýsir ástandinu á svæðinu sem „skelfilegu“ eftir að hafa skoðað hamfarasvæðið úr lofti. Eldarnir eru þegar þeir þriðju verstu sem íbúar á svæðinu hafa glímt við.

Í gær voru 2.300 slökkviliðsmenn komnir á svæðið víða að frá Bandaríkjunum til að berjast við eldana, sem hófust 29. maí. Reykurinn frá eldunum sést langt að og greinilega í nágrannafylkjunum Nýju-Mexíkó og Colorado. Fólki á stórum svæðum er ráðlagt að halda sig innan dyra vegna reykjarkófsins.

Alvarlegast er ástandið í fjallahéruðum austarlega í Arizona. Fólk byrjaði að yfirgefa heimili sín á stórum svæðum strax á laugardag þegar eldarnir voru aðeins fáeina kílómetra í burtu. Þeim fáu sem eftir eru í nokkrum bæjum á svæðinu hefur verið gert að vera í viðbragðsstöðu og yfirgefa heimili sín með aðeins nokkurra mínútna fyrirvara, gerist þess þörf.

Slökkviliðsmenn hafa reynt að kveikja smærri elda til að mynda belti af brunnu landi, en þannig stóðu vonir manna til að hægt væri að halda framrás eldanna í skefjum. Þessar aðgerðir hafa ekki skilað neinum árangri.

Kostnaður við slökkvistarfið hleypur nú þegar á milljónum dala en óttast er að kostnaðurinn við eldana muni hækka margfalt, sérstaklega ef fram fer sem horfir og eldarnir ná til mannlausra bæjanna sem eru næst eldhafinu. Hingað til hafa einungis fáeinir fjallakofar orðið eldinum að bráð og hvorki íbúum né slökkviliðsmönnum hefur orðið meint af í baráttunni við eldana.

Skógareldar í Arizona árið 2002 brenndu 1.400 ferkílómetra svæði og stór skógareldur í ríkinu árið 2005 olli miklum skemmdum á gróðurlendi nálægt Phoenix, höfuðborg ríkisins.

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×