Erlent

Haldið upp á afmæli Ítalíu

Hamid Karzai, forseti Afganistans, horfir á sýninguna meðan Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, og Amr Moussa, framkvæmdastjóri Arababandalagsins, eiga í alvörugefnum samræðum. nordicphotos/AFP
Hamid Karzai, forseti Afganistans, horfir á sýninguna meðan Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, og Amr Moussa, framkvæmdastjóri Arababandalagsins, eiga í alvörugefnum samræðum. nordicphotos/AFP
Ítalir efndu í gær til hátíðarhalda í tilefni þess að 150 ár eru liðin frá því að Ítalía sameinaðist í eitt ríki og 50 ár frá því að núverandi lýðveldisfyrirkomulag var tekið upp.

Þjóðhöfðingjum frá áttatíu löndum var boðið til Rómar þar sem þeir komu sér vel fyrir í gærmorgun og fylgdust með hersýningu. Um kvöldið var svo snæddur hátíðarkvöldverður í boði Giorgio Napolitano forseta í Quirinale-höllinni. Alls tóku um fjögur þúsund hermenn þátt í hersýningunni en með henni fylgdust tuttugu þúsund manns.

Meðal gestanna voru Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff, en þarna voru einnig Dmitrí Medvedev Rússlandsforseti og Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna. Einnig voru mættir Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, og Herman van Rompuy, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins. Þarna var einnig Amr Moussa, framkvæmdastjóri Arababandalagsins, og þarna voru einnig forsetar Ísraels og Afganistans.

Silvio Berlusconi, hinn umdeildi forsætisráðherra Ítalíu, naut sín í miðju atburðanna og lék á als oddi. Umberto Bossi, fyrrverandi samstarfsmaður Berlusconi í pólitíkinni en núverandi fjandvinur hans, lét hins vegar ekki sjá sig.

Napolitano forseti gaf athöfnunum hins vegar virðulegan blæ, mitt í umróti hneykslismála sem Berlusconi hefur glímt við síðustu vikur og mánuði. Í gær var nákvæmlega hálf öld liðin frá því að Ítalir stofnuðu lýðveldi á rústum fasistaríkis Mussolini einræðisherra. Hinn 17. mars síðastliðinn héldu Ítalir hins vegar upp á annað afmæli, sem einnig blandaðist inn í hátíðarhöldin í gær, en þá voru 150 ár liðin frá því að ítölsku furstadæminsameinuðust í eitt ríki.



gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×