Lífið

Smíðaði einstakt hljóðfæri fyrir Björk Guðmundsdóttur

Björgvin Tómasson orgelsmiður smíðaði nýtt hljóðfæri fyrir tónlistarkonunar Björk. Hljóðfærið er einstakt og það eina sinnar tegundar í heiminum. Á myndinni eru frá vinstri Matt Nolan, Björgvin og kvikmyndagerðarmaðurinn Andy McCreeth.
Björgvin Tómasson orgelsmiður smíðaði nýtt hljóðfæri fyrir tónlistarkonunar Björk. Hljóðfærið er einstakt og það eina sinnar tegundar í heiminum. Á myndinni eru frá vinstri Matt Nolan, Björgvin og kvikmyndagerðarmaðurinn Andy McCreeth.
Björgvin Tómasson orgelsmiður lauk nýverið við að smíða nýtt hljóðfæri handa tónlistarkonunni Björk. Hljóðfærið mun leika veigamikið hlutverk á næsta hljómdiski Bjarkar.

Björgvin hefur starfað sem orgelsmiður í fjölda ára og á þeim tíma hefur hann smíðað yfir þrjátíu pípuorgel frá grunni, þar á meðal eitt fyrir Björk. Hljóðfærið sem hann smíðaði nú er þó alls ólíkt orgeli og að auki það eina sinnar tegundar í heiminum. Að sögn Björgvins er hljóðfærið blanda af celestu og asíska hljóðfærinu gamelan og hefur hlotið nafnið „gamelest" sem er samsuða úr nöfnum hljóðfæranna tveggja. „Björk var að leita eftir hljóði sem svipaði til þess sem kemur úr gamelan í hljóðfæri sem hún átti fyrir. Við sem sagt breyttum celestu í hljóðfæri sem er með píanó hljómborði en slær á málmplötur. Við rafvæddum einnig hljóðfærið þannig að hægt sé að spila á það í gegnum tölvu," útskýrir Björgvin.

Björgvin smíðaði hljóðfærið ásamt enskum kollega sínum, Matt Nolan, og gekk samstarf þeirra vonum framar. Hann segir verkefnið bæði hafa verið skemmtilegt og mjög spennandi enda hafi enginn vitað hver útkoman yrði þegar hafist var handa. „Við kláruðum hljóðfærið fyrir páska og Björk kom á verkstæðið til mín á skírdag. Þá var strax farið í það að taka upp fyrir nýju plötuna. Hún var mjög ánægð með útkomuna og gaf hljóðfærinu nafnið Elísabet."

Björgvin ber Björk vel söguna og segir hana frábæran listamann sem pæli mikið í tónlist. „Ég er meira fyrir klassíska tónlist, enda er það mitt áhugasvið, en Björk hefur auðvitað gert mjög skemmtilega hluti í tónlist og maður sér enn betur hversu frábær listamaður hún er eftir að hafa fengið að kynnast henni persónulega. Hún er mikill pælari og er stanslaust að spá og spekúlera."

sara@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.