Lífið

Níðþung og sveitt stemning

klárir í slaginn Björgvin Sigurðsson (til vinstri) og Aðalbjörn Tryggvason ætla ekkert að gefa eftir í kvöld.fréttablaðið/valli
klárir í slaginn Björgvin Sigurðsson (til vinstri) og Aðalbjörn Tryggvason ætla ekkert að gefa eftir í kvöld.fréttablaðið/valli
Þungarokkssveitirnar Skálmöld og Sólstafir troða upp á Nasa í kvöld. Söngvarar sveitanna vona að hljóðkerfi staðarins standist álagið. „Þetta verður sveitt stemning,“ segir Björgvin Sigurðsson, söngvari víkingarokkaranna í Skálmöld. Sveitin spilar á Nasa í kvöld ásamt öðrum þungavigtarmönnum í Sólstöfum og ljóst að krafturinn sem leysist úr læðingi verður ógurlegur.

Spurður hvort hljóðkerfið á Nasa eigi ekki eftir að láta undan segir Björgvin að það muni koma í ljós. „Þeir státa sig af því að vera með besta hljóð- og ljósakerfi á landinu. Við verðum að vona að það dugi en hver veit, kannski springur það. Við ætlum ekki að halda neitt aftur af okkur og við vonum svo sannarlega að aðrir geri það ekki heldur.“

Skálmöld ruddist fram á sjónarsviðið í fyrra og hefur fyrsta plata hennar, Baldur, selst í hátt í tvö þúsund eintökum sem er óvenjulegt þegar íslensk þungarokkssveit er annars vegar. „Við gerðum upphaflega þúsund eintök en þau seldust upp fljótlega sem var eitthvað sem við áttum ekki von á,“ segir Björgvin. Hann telur íslenskt þungarokk vera í mikilli sókn. Til marks um það verða tónleikarnir á Nasa þeir stærstu sem Skálmöld hefur spilað á til þessa. „Þetta er ákveðinn prófsteinn á hversu langt við getum teygt okkur hérna heima.“

Aðalbjörn Tryggvason, söngvari Sólstafa, hlakkar mikið til tónleikanna í kvöld. Síðast spilaði sveitin í steypustöðvarhúsi á hátíðinni Aldrei fór ég suður. „Ég held að Aldrei fór ég suður hafi verið okkar stærsta gigg á Íslandi. Við spiluðum reyndar einu sinni á Nasa en það var fyrir tómu húsi á styrktartónleikum,“ segir hann.

Spurður hvor hljómsveitin sé þyngri, Skálmöld eða Sólstafir, segir hann: „Þeir eru ábyggilega þyngri en við erum með stærri músík.“

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.