Lífið

Stelur kastljósinu frá konunglega brúðkaupinu

Brúðhjón dagsins
Brúðkaup Kristjáns Eyjólfssonar og Ivonne Valle vakti mikla athygli hjá heimspressunni enda völdu þau að ganga í það heilaga sama dag og breski prinsinn Vilhjálmur og heitkona hans, Kate Middleton. Brúðkaupið verður þó eilítið smærra í sniðum en hjá bresku konungsfjölskylduni; aðeins fjórtán gestir verða viðstaddir athöfnina hjá Kristjáni og Ivonne en ekki 1.900 eins og hjá Vilhjálmi og Kate.
Brúðhjón dagsins Brúðkaup Kristjáns Eyjólfssonar og Ivonne Valle vakti mikla athygli hjá heimspressunni enda völdu þau að ganga í það heilaga sama dag og breski prinsinn Vilhjálmur og heitkona hans, Kate Middleton. Brúðkaupið verður þó eilítið smærra í sniðum en hjá bresku konungsfjölskylduni; aðeins fjórtán gestir verða viðstaddir athöfnina hjá Kristjáni og Ivonne en ekki 1.900 eins og hjá Vilhjálmi og Kate.
Kristján Eyjólfsson, íslenskur gullsmiður og skartgripahönnuður búsettur í London, stal senunni af þeim Vilhjálmi Bretaprins og Kate Middleton á miðvikudag þegar heimspressan komst á snoðir um að hann og unnusta hans, hin ástralska Ivonne Valle, hygðust ganga í það heilaga í dag. Kristján og Ivonne mættu fyrst í viðtal við BBC London, svo var ítarlegt viðtal við þau á bandarísku fréttastöðinni ABC og deginum lauk með blaðaviðtali við Evening Standard.

Þótt athöfnin sé sú sama hjá Kristjáni og Ivonne og þeim Vilhjálmi og Kate gæti eftirleikurinn ekki verið ólíkari. Prinsinn og prinsessan þurfa að sinna 1.900 gestum sem fylgjast með hverju skrefi þeirra á brúðkaupsdaginn en gestirnir í brúðkaupi Kristjáns og Ivonne eru fjórtán talsins. „Við komum hvort frá sínum enda jarðarinnar þannig að það var erfitt að ná öllum saman í einu. En það kemur fólk frá Íslandi, Ástralíu, Þýskalandi, Indlandi og Bandaríkjunum, mjög sérstakur og fjölþjóðlegur en lítill hópur, náinna ættingja og vina,“ segir Kristján í samtali við Fréttablaðið. Um kvöldið ætla þau síðan að koma vinum sínum á óvart með „Royal Wedding“ partíi á hverfiskránni sinni. „Það veit enginn að við erum að fara að gifta okkur þennan sama dag þannig að þetta á eftir að koma þeim skemmtilega á óvart.”

Gullsmiðurinn hefur búið í London síðan 2004 og rekur sitt eigið gullsmíðaverkstæði, Eyjolfsson Goldsmiths Ltd., þar sem hann einbeitir sér að sérsmíði skartgripa. Hann kynntist verðandi eiginkonu sinni í partíi í London og segir að það hafi verið ást við fyrstu sýn. Kristján og Ivonne hyggjast ganga í það heilaga í Marylebone-ráðhúsinu klukkan hálf ellefu, hálftíma áður en Vilhjálmur játast Kate og gerir hana að prinsessu. Ákvörðunin um að ganga í hjónaband var tekin í febrúar hjá þeim skötuhjúum og Kristján segir að þau hafi lítið spáð í dagsetninguna, 29. apríl, heldur bara fundist hún passa fullkomlega. „Það var ekki fyrr en við hringdum í Marylebone-ráðhúsið að starfsmaður þar spurði okkur hvort við áttuðum okkur ekki á hvaða dag við hefðum valið,“ segir Kristján og viðurkennir að hann eigi sennilega aldrei eftir að gleyma brúðkaupsafmælinu.

Blaðamaður ABC bendir á það í sinni umfjöllun að Kristján og Ivonne hafi valið sama hráefni í sína hringa, demanta og safíra, en breski prinsinn getur eflaust ekki montað sig af því að hafa smíðað hringana sjálfur eins og Kristján gerði.

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.